Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 21. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Mind Muangkhumsakul (29/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 2 stúlkur, sem voru hvað óheppnastar. Þær deildu 20. sætinu ásamt Maríu Torres og engu munaði að þær næðu fullum spilarétti á LPGA, en til bráðabana varð að koma milli þeirra þriggja og þar sigraði María. Þær tvær sem töpuðu í bráðabananum voru Mind Muangkhumsakul frá Thaílandi og Daniela Darquea. Daníela var kynnt í gær, þannig að í dag er það Mind.

Mind Muangkhumsakul fæddist 13. desember 1998 og er því 19 ára.

Hún er 1.70 m og 61 kg.

Mind byrjaði að spila golf 5 ára.

Mynd gerðist atvinnumaður í golfi fyrir 5 árum þegar hún var aðeins 15 ára.

Ef hún væri ekki atvinnumaður í golfi myndi hún vilja vera lögmaður.

Árið 2017 spilaði Mind á Symetra Tour og var besti árangur hennar þar  5. sætið í Island Resort Championship en mótið fór fram í Harris, Michigan.