Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 7. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Lauren Coughlin (43/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum.

Að undanförnu hafa 2 af 3 sem deildu 7. sætinu á lokaúrtökumótinu verið kynntar, en þær léku allar á samtals 6 undir pari, 354 höggum, hver. Þetta eru þær: Georgia Hall frá Englandi og Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum. Aðeins á eftir að kynna Lauren Coughlin og verður það gert í dag.

Lauren Coughlin er 25 ára frá Chesapeake, Virginíu og byrjaði 7 ára í golfi. Hún lék líka golf  í Hickory High-school menntaskóla og síðan í háskóla.

Coughlin lék  í bandaríska háskólagolfinu með kvennagolfliði University of Virginía (2012-2016). Sjá má um afrek hennar í bandaríska háskólagolfinu með því að SMELLA HÉR: 

Árið 2016 og 2017 lék Coughlin á Symetra Tour en er nú komin á mótaröð þeirra bestu, LPGA, keppnistímabilið 2018 með kortið sitt og full spilaréttindi.

Þegar ljóst var að hún væri með full keppnisréttindi á LPGA sagði Coughlin: „Ég er bara virkilega þakklát, mér finnst þetta vera stórt. Ég er virkilega spennt að fara þarna út og spila vel. Ég hugsa að þetta sé svolítið sem ég hélt að ég myndi aldrei í raun gera þannig að þetta er stórt. Ég hef átt fullt af fólki sem hefir trú á mér þannig að ég er spennt.

Meðal áhugamála Coughlin er að horfa á kvikmyndir, verja tíma með vinum sínum og íþróttir (einkum ruðningur og körfubolti).