Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 18. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Kendall Dye (27/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 7 stúlkur, sem deildu 23. sætinu. Leticia Ras-Anderica frá Þýskalandi og Madeleine Sheils, Daniela Iacobelli, Alison Walshe, Nannette Hill og Dori Carter frá Bandaríkjunum hafa þegar verið kynntar og í dag er það sú síðasta af stúlkunum ólánsömu í 23. sætinu, sem verður kynnt en það er Kendall Dye.

Kendall Dye fæddist fæddist 3. mars 1987 í Memphis, Tennessee og er því 30 ára. Kendall byrjaði að spila golf 8 ára. Meðal áhugamála hennar er að horfa á kvikmyndir, fara í verslunarleiðangra, lesa og háskólaíþróttir. Hún segir fjölskyldu sína hafa haft mest áhrif á að hún byrjaði í golfi.

Kendall var í University of Oklahoma og útskrifaðist með gráðu í samskiptafræðum (ens.: Communications) árið 2009. Kendall býr í Edmond, Oklahoma.

Eftir útskrift í Oklahoma spilaði Recorded Kendall m.a. á Cactus Tour, þar sem Tinna „okkar“ Jóhannsdóttir spilaði einnig á eftir útskrift. Kendall sigraði í tveimur mótum á Cactus Tour. Næstu 2 árin spilaði hún á LPGA Futures Tour þ.e. 2010 og 2011 og var besti árangur hennar þar 5. sætið á South Shore Championship í Crown Point, Indíana.

Árið 2012 spilaði Kendall á Evrópumótaröð kvenna. Á undanförnum árum hefir hún hins vegar spilað á Symetra Tour þ.e. 2. deildinni í bandarísku kvennagolfi.

Það munaði aðeins 1 höggi á Dye næði kortinu sínu og fullum spilarétti á LPGA.

Til þess að fræðast nánar um Kendall Dye má m.a. skoða heimasíðu hennar með því að SMELLA HÉR: