Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 5. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Georgia Hall (41/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang;  þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum.

Nú verður byrjað að kynna þær 3 sem deildu 7. sætinu á lokaúrtökumótinu en þær  léku allar á samtals 6 undir pari, 354 höggum, hver. Þetta eru þær: Georgia Hall frá Englandi og Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum. Byrjað verður á að kynna Georgiu Hall.

Georgia Hall fæddist í Bournemouth, Englandi, 12. apríl 1996 og er því 21 árs.

Hall átti farsælan áhugamannsferil en hápunktur þar er m.a. að sigra á British Ladies Amateur Golf Championship árið 2013. Eins tók Hall þátt í ýmsum liðakeppnum þ.e var í liði Evrópu í Junior Solheim Cup 2013 og í liði Breta&Íra í Curtis Cup 2014.  Í júlí það ár, 2014, gerðist Hall atvinnumaður í golfi. Hún sigrði á  Open Generali de Strasbourg á LET Access 2014. Snemma á árinu 2016 sigraði Hall síðan á the Oates Victorian Open on the ALPG mótaröðinni.

Besti árangur Hall í risamótum er T-3 árangur í Opna breska kvenrisamótinu 2017.

Nú eftir þátttöku í lokaúrtökumóti LPGA, þar sem hún landaði 7. sætinu er Hall, þrátt fyrir ungan aldur, komin á bestu kvenmótaröð heims með kortið sitt og þ.a.l. fullan spilarétt 2018.