Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 5. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Brittany Marchand (16/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 13 stúlkur, sem deildu 32. sætinu og hlutu takmarkaðan spilarétt og í dag verður Brittany Marchand kynnt, en tíu fyrstu af stúlkunum 13, Sophia Popov frá Þýskalandi, Martina Edberg og Camilla Lennarth frá Svíþjóð, Jennifer Hahn, Alexandra Newell og Lori Beth Adams frá Bandaríkjunum, Wichanee Meechai og Pannarat Thanapoolboonyaras frá Thaílandi, Dottie Ardina frá Filippseyjum og kanadíska stúlkan Maude Aimee Leblanc hafa þegar verið kynntar.

Brittany Marchand fæddist 27. júní 1992 í Orangeville, Kanada og er því 25 ára.

Hún byrjaði að spila golf  7  ára.

Meðal hápunkta Marchand sem áhugamanns er eftirfarandi:

*Hún keppti á Opna bandaríska risamótinu 2011.
*Hún sigraði þrívegis í háskólamótum.
*Hún sigraði á Ontario Women’s Amateur Championship (2012).

Árið 2015 spilaði Marchand á smærri mótaröðum og sigraði m.a. á Cactus Tour.

Árið 2016 komst hún í 2. deildina í kvennagolfinu, þ.e. Symetra Tour í Bandaríkjunum og á síðasta ári, 2017, vann hún þegar fyrsta sigur sinn þar þ.e. PHC Classic.

Af 21 móti sem Marchans spilaði í á Symetra Tour 2016 náði hún niðurskurði 19 sinnum og í fyrra, 2017 náði hún niðurskurði í 12 af 18 mótum sem hún spilaði í.

Nú hefir hún takmarkaðan spilarétt á mótaröð þeirra bestu LPGA árið 2018.

Meðal áhugamála Marchand er að lesa, yoga, að versla, horfa á sjónvarpið og mála.