Amelia Lewis
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 6. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Amelia Lewis (42/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum.

Nú verður byrjað að kynna þær 3 sem deildu 7. sætinu á lokaúrtökumótinu en þær léku allar á samtals 6 undir pari, 354 höggum, hver. Þetta eru þær: Georgia Hall frá Englandi og Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum. Byrjað var á að kynna Georgiu Hall í gær og í dag er það Amelia Lewis.

Amelia Lewis fæddist 23. febrúar 1991 í Jacksonville, Flórída og er því 26 ára. Hún á því sama afmælisdag og Steve Stricker. Amelia var önnur stúlknanna sem var með Ólafíu Þórunni „okkar“ Kristinsdóttur í ráshóp fyrstu 2 dagana á Pure Silk Bahamas LPGA Classic fyrsta LPGA-móti ársins 2018, þar sem Ólafía náði sem kunnugt er þeim glæsilega árangri að verða T-26. Amelia lauk keppni T-60.

Amelia byrjaði að spila golf 10 ára og gerðist atvinnumaður í golfi 9 árum síðar, eða 1. apríl 2010. Hún er fremur hávaxin af kvenkylfingi að vera eða 1,78 m. Meðal áhugamála Amelíu er matseld, tónlist, lestur og bíblíugrúsk.

Hún segir Jesús og foreldra sína hafa haft mest áhrif á feril sinn. Hún var um stund í University of Florida, en hætti til að einbeita sér að golfferli sínum.

Sem áhugamaður var Lewis nr. 3 á heimslista áhugamanna. Hún sigraði í 52 mótum sem unglingur og áhugamaður. Hún vann m.a. North and South Women’s Amateur Championship árið 2009 og var í 2. sæti á Harder Hall Invitational, 2009. Hún var þrívegis Florida All-First Coast Girl leikmaður ársins (2006, 2007, 2008).

Sem atvinnumaður spilaði hún fyrst á LPGA Futures Tour (nú Symetra Tour). Besti árangur hennar þar var 2. sæti á Alliance Bank Golf Classic. Árið 2011 var hún nýliði á LPGA Tour þar sem hún spilaði í 8 mótum og var besti árangurinn 29. sæti á RR Donnelley LPGA Founders Cup. Í ár hefir Amelia spilað á LET, en hún komst í gegnum Q-school 2011, þ.e. varð í 16. sæti.

Besti árangur Amelíu á risamóti er T-14 árangur á Opna breska kvenrisamótinu 2014.

Til þess að fræðast meira um Amelíu þá er vert að skoða heimasíðu hennar með því að SMELLA HÉR: