Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Alison Walshe (21/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 7 stúlkur, sem deildu 23. sætinu og byrjað á Alison Walshe.

Alison Walshe fæddist 27. september 1985 í Galway, New York og er því 32 ára.

Hún er 1,7 m á hæð.

Walshe byrjaði í golfi 10 ára.

Walshe segir foreldra sína vera þá sem hafi haft mest áhrif á golfferil hennar.

Meðal áhugamála Walshe er að ferðast, verja tíma með vinum og fylgjast með íþróttum almennt í Boston.

Meðal styrktaraðila Walshe eru Antigua, T3 Solutions og Titleist.

Árið 2007, sigraði Walshe North-South Amateur Championship.

Árið 2008 var hún í sigurliði Bandaríkjanna í Curtis Cup Team,og spilaði síðan fyrir U.S. World Amateur Championship liðið.

Sem áhugamaður spilaði Walshe í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Arizona, þar sem hún varð 3 sinnum All-American og sigraði 10 sinnum í einstaklingskeppnum.

Í febrúar 2009 gerðist Walshe atvinnumaður í golfi.

Hún varð í 9. sæti á stigalista SYMETRA Tour og komst þannig á LPGA keppnistímabilið 2010

Walshe komst þannig á LPGA þegar í fyrstu tilraun 2010 og var með fullan keppnisrétt á LPGA til og með ársins 2015.

En í ár (2018) er hún aðeins með takmarkaðan spilarétt á LPGA.