Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2015 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2015: Perrine Delacour (33/45)

Nú hafa allar stúlkurnar verið kynntar sem urðu í 18.-45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, sem fram fór 3.-7. desember 2014.

Þrjár (þ.e. þær í 18.-20. sæti) erumeð fullan spilarétt eftir 7 manna bráðabana og hinar sem urðu í 21.-45. sæti með takmarkaðan spilarétt.

Lokaúrtökumótið fór fram á Hill og Jones golfvöllunum á  LPGA International, á Daytona Beach, í Flórída.

Sjö kylfingar deildu 11. -17. sætinu, en þær léku allar á samtals 5 undir pari, hver.

Þetta eru þær: frænka Tiger: Cheyenne Woods,  Therese Koelbaek frá Danmörku, franski kylfingurinn  Perrine Delacour,  SooBin Kim frá Suður-Kóreu,  Sakura Yokomine frá Japan,  Sophia Popov frá Þýskalandi og  Ju Young Park, frá Suður-Kóreu.
Ju Young Park, Sophia Popov, Sakura Yokomine og Soo Bin Kim hafa þegar verið kynntar, en sú sem kynnt verður í dag er Perrine Delacour.

Perrine Delacour lék á samtals 5 undir pari, 355 höggum ( 70 71 71 71 72)

Perrine Delacour fæddist í 5. apríl 1994 og er því 21 árs.

Heima í Frakklandi er hún í Ailette golfklúbbnum. Perrine er í franska golflandsliðinu og á sínum tíma ofarlega á heimslista áhugamanna, áður en hún gerðist atvinnumaður í golfi 2012.

Árið 2009 sigraði Perrine á Girls’ British Open Amateur Championship undir 18 ára þegar mótið var haldið í West Lancashire Golf Club árið 2009.

Hún sigraði í Cecile de Rothschild Trophy í Morfontaine golfklúbbnum í Frakklandi, 2011. Eins vann Perrine Opna írska í höggleik undir 18 ára í Knightsbrook, 2011, sama mót og 6 stúlkur úr Keili kepptu í  vorið 2012.

Perrine Delacour var í forystu 2012 á Helen Holm Championship á Troon, í Skotlandi en tapaði með 1 höggi fyrir velska kylfingnum Amy Boulden. Delacour komst í undanúrslit í ár á Ladies’ British Amateur Championship, vann m.a. ensku stúlkuna Kelly Tidy, í leik sem hlaut mikla umfjöllun vegna þess að álitið var að Perrine hefði sýnt af sér mjög óíþróttamannlega hegðun, sem m.a. fólst í því að hún truflaði Tidy meðan hún var að slá af teig.

Árið 2013 var Perrine nýliði á LPGA – lék fyrst á Symetra Tour, en varð í 2. sæti á Symetra Tour Champinship á Daytona Beach og varð þar með í 8. sæti á stigalista Symetra  Tour og hlaut þ.a.l. kortið sitt á LPGA, 2014.  Það ár gekk henni ekkert of vel og hún varð að fara í Q-school LPGA í lok árs 2014.

Eftir að hafa orðið T-11 í Q-school eins og að framan segir er  Perrine sem sagt komin með fullan keppnisrétt á LPGA þetta 2015 keppnistímabil.

Fá má nánari upplýsingar um Perrine á heimasíðu hennar með því að SMELLA HÉR: