Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 23. 2015 | 12:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2015: Ariya Jutanugarn (43/45)

Nú hafa allar stúlkurnar verið kynntar sem urðu í 5.-45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, sem fram fór 3.-7. desember 2014.

Þær sem eru í 1.-20. sæti eru með fullan spilarétt en hinar sem urðu í 21.-45. sæti með takmarkaðan spilarétt.

Lokaúrtökumótið fór fram á Hill og Jones golfvöllunum á LPGA International, á Daytona Beach, í Flórída.

Nú er komið að því að kynna þá kylfinga, sem urðu í 3.-4. sæti í mótinu, m.ö.o. T-3; Maríu Hernandez frá Spáni og Ariyu Jutanugarn frá Thaílandi. María hefir þegar verið kynnt og í dag er röðin komin að thaílensku stúlkunni Ariyu.

Ariya lék á samtals 9 undir pari, 351 höggi (73 69 71 67 71).

Ariya varð í 1. sæti í Q-school LET árið 2012 og hefir vegnað vel á Evrópumótaröð kvenna (LET).

Ariya Jutanugarn

Ariya Jutanugarn

Ariya Jutanugarn fæddist í Bankok 23. nóvember 1995 og er því 19 ára. Hún gerðist atvinnumaður í golfi 1. janúar 2013.

Hún byrjaði í golfi aðeins 5 ára með því að æfa sig á æfingasvæðinu. Mestu áhrifavalda sína í gofinu segir hún vera foreldra sína, sem eiga golfverslun í Thaílandi.

Meðal áhugamála er tennis, að fylgjast með thaílenskum dramasjónvarpsþætti og ferðast.

Hápunktar á áhugamannsferli Jutanugarn: Vann US Junior Amateur, US Amateur Public Links, AJGA Rolex Girls Junior, Canadian Women´s Amateur og Polo Golf Junior Classic. Hún var valinn AJGA Rolex Junior kylfingur ársins 2012, 2. árið í röð. Árið 2011 var hún lægsti áhugamaðurinn í Kraft Nabisco Championship þegar hún landaði 25. sætinu. Hún lauk áhugamannaferli sínum í desember 2012 í 2. sæti á heimslista áhugamanna meðal kvenkylfinga. Systir Ariyu, Moriya spilar á LPGA Tour.

Hápunktar á atvinnumannsferlinum: Hefir þegar sigrað á 1. móti sínu á LET – Lalla Meryem Cup í Marokkó og varð T-2 í Volvik RACV Ladies Masters.