Maria Hernandez
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 22. 2015 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2015: María Hernandez (42/45)

Nú hafa allar stúlkurnar verið kynntar sem urðu í 5.-45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, sem fram fór 3.-7. desember 2014.

Þær sem eru í 1.-20. sæti eru með fullan spilarétt en hinar sem urðu í 21.-45. sæti með takmarkaðan spilarétt.

Lokaúrtökumótið fór fram á Hill og Jones golfvöllunum á LPGA International, á Daytona Beach, í Flórída.

Nú er komið að því að kynna þá kylfinga, sem urðu í 3.-4. sæti í mótinu, m.ö.o. T-3; Maríu Hernandez frá Spáni og Ariyu Jutanugarn frá Thaílandi. Byrjað verður á Maríu.

María lék á samtals 9 undir pari, 351 höggi (67 73 71 65 75).

Maria Hernandez fæddist 24. mars 1986 í Pamplona á Spáni og er því 29 ára. Maria var í golfliði Purdue í Bandaíkjunum þar sem hún nam stjórnun. Hún gerðist atvinnumaður 1. janúar 2010 eftir að hafa orðið í 10. sæti í Q-school LET og komst þar inn í fyrstu tilraun sinni.

Hernandez var nýliði á Evrópumótaröð kvenna 2010 og strax þá skaraði hún fram úr og vann m.a. glæstan sigur á Allianz Ladies Slovak Open, þar sem hún bar sigurorð af áströlsku stúlkunni Kristie Smith með 1 höggi á Gray Bear Golf Course.

Hún tók þátt í Q-school LPGA 2012 og hlaut takmarkaðan spilarétt á 2013 keppnistímabilinu. Nú er hún meðal efstu á LPGA úrtökumótinu og með fullan keppnisrétt!

Meðal áhugamála Maríu  fyrir utan golfið er að vera á skíðum, fylgjast með fótbolta, íþróttir almennt, verja tíma með vinum sínum og horfa á kvikmyndir.