Ragnheiður Jónsdóttir | október. 13. 2020 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LET 2020: Pia Babnik (55/65)

Á lokahring lokaúrtökumótsins fyrir LET spila 60 efstu og þær sem jafnar eru í 60. sætinu.

Í ár voru 7 stúlkur jafnar í 59. sætinu eftir 4. hring úrtökumótsins og spiluðu því alls 65 stúlkur lokahringinn og verða allar 65 kynntar, en lokastaðan í úrtökumótinu var eftirfarandi SMELLIÐ HÉR:

Dansað var úr röðinni og hefir íslenski keppandinn, sem komst í flokk 8a, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, þegar verið kynnt, sem og enska stúlkan Rachel Drummond, sem var meðal þeirra 7 sem rétt sluppu inn á lokahringinn.

Nú verða stúlkurnar kynntar eftirleiðis eftir þeirri sætisröð sem þær lentu í á lokaúrtökumótinu. Sú sem varð í 65. sætinu, sænski kylfingurinn Isabelle Johansson hefir þegar verið kynnt. Næst voru kynntar þær sem deildu 61. sætinu og þær tvær sem deildu 57. sætinu, þær 7 sem deildu 50. sætinu, þær 7 (6), sem urðu T-43, þær 6 sem urðu T-37 og þær 4, sem deildu 33. sætinu; þær 7 stúkur sem deildu 27. sætinu; þær tvær sem urðu T-25; þá sem varð ein í 24. sætinu og þær fjórar sem deildu 20. sætinu.

Næst verða kynntar þær 10 stúlkur sem deildu 10. sætinu þ.e. urðu T-10, en allar spiluðu þær á samtals 3 yfir pari, 364 höggum og tryggðu sér þar með öruggt sæti og fullan spilarétt á sterkustu kvenmótaröð Evrópu, Ladies European Tour (skammst: LET). Ein þessara stúlkna, Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefir þegar verið kynnt, en kynning hennar var birt aftur. Hinar 9 sem náðu þessum glæsilega árangri að verða T-10 voru Charlotte Thomas frá Englandi; Tiia Koivisto frá Finnlandi, Eun Jung Ji frá S-Kóreu, Sophie Hausmann og Carolin Kauffmann frá Þýskalandi, Morgane Metraux frá Sviss, Filippa Moork frá Svíþjóð, Pia Babnik frá Slóveníu, en hún var jafnframt yngsti keppandinn í þessu lokaúrtökumóti og síðan hin franska Anne Charlotte Mora.

Búið er að kynna fyrstu 8 af þeim sem urðu T-10 og í dag verður slóvenski kylfingurinn Pia Babnik kynnt en hún varð uppreiknað í 11. sætinu.

Pia Babnik fæddist 2. janúar 2004 og er því aðeins 16 ára og var yngsti þátttakandinn í Q-school LET til þess að fá fullan þátttökurétt á LET.

Babnik fæddist og býr í Ljubljana í Slóveníu.

Hún byrjaði að spila golf 3 ára tók þátt í fyrsta móti sínu 4 ára, þar sem henni tókst m.a. að ná fugli! Hún sigraði síðan allt sem hægt var í sínum aldursflokkum á barna- og unglingamótaröðum í Slóveníu; en einnig á alþjóðavettvangi.

Babnik tók síðan þátt í sínu fyrsta atvinnumannamóti 12 ára, þ.e. á LET Access; CitizenGuard LETAS Trophy í Belgíu og náði niðurskurði!

Á árunum 2017-2019 var Babnik fulltrúi Slóveníu í European Ladies Team Championship.

Árið 2018 náði hún lægsta skori sínu á Trnovo Masters (10 undir pari -58 högg) og nældi sér í silfrið á Mediterranean Games ásamt þeim Vidu Obersnel og Önu Belac.

Þrátt fyrir ungan aldur hefir Babnik einnig tekist að sigra í ýmsum stórmótum og ber þar hæst sigur hennar í R&A Girls Amateur Championship árið 2019.  Sá sigur veitti henni rétt til þátttöku í lokaúrtökumótinu fyrir Opna breska kvenrisamótið 2020; Women´s Amateur Championship og Augusta National Women´s Amateur Championship.

Sama ár (2019) komst Babnik einnig í gegnum niðurskurð á fyrsta LET mótinu sem hún spilaði í  ( Czech Ladies Open). Eins sigraði hún á Helen Holm Scottish Women´s Open á Royal Troon.

Babnik var í liði Evrópu Junior Solheim Cup á Gleneagles og eins í sigurliði Junior Vagliano Trophy á Royall St. Georges Golf Club.

Babnik var komin á heimslista áhugakylfinga aðeins 10 ára og náði hæst 5. sætinu á þeim lista. Þegar hún gerðist atvinnumaður í golfi (2019) var hún með +7 í forgjöf.

Fram til dagsins í dag hefir hún náð niðurskurði í öllum LET mótum sem hún hefir spilað í og er í 25. sæti á stigalistanum. Hún náði topp-10 árangri á Women´s NSW Open og Czech Ladies Open og var nálægt sigri á Lavaux ladies Open í Sviss en tapaði í bráðabana við Agathe Laisne

Frábær nýliði á ferð hér – sem var á sama skori og Guðrún Brá „okkar“ í lokaúrtökumóti LET!!! Babnik á framtíðina fyrir sér í golfinu og verður gaman að fylgjast með henni!!!