Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2020 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LET 2020: Guðrún Brá Björgvinsdóttir (1/65)

Hér á næstu mánuðum verða kynntar þær 65 stúlkur sem léku lokahringinn á lokaúrtökumóti LET, á Suðurvelli La Manga golfstaðarins í Murcia á Spáni. Sjá má lokastöðuna á lokaúrtökumótinu, sem fram fór dagana 22.-26. janúar 2020 með því að SMELLA HÉR:

Aðeins 20 efstu hlutu keppnisrétt á LET mótaröðinni; efstu 5 fóru í flokk 5c og fá fullan spilarétt á LET; næstu 15 spila í flestöllum mótum LET og eru í flokk 8a.

Þær sem voru í 21-65 sæti (að þessu sinni) fá spilarétt á LET Access og þær sem eru í efstu sætunum fá jafnvel takmarkaðan þátttökurétt á LET mótum. Þær eru í flokki 9b.

Venjan á undanförnum árum hefir verið að kynna þá sem varð í síðasta sæti (í þetta sinn 65. sæti) og enda á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu. Verður sami háttur hafði á nú og á undanförnum árum með einni undantekningu því í ár var íslenskur kylfingur meðal efstu 20, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og verður byrjað að kynna hana, þó farið sé út úr röðinni og hún ætti í raun að vera 48/65 því hún lenti jú uppreiknað í 17. sæti lokaúrtökumótsins. Það er varla þörf að kynna Guðrúnu Brá, svo þekkt er hún hér á Íslandi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er fædd 25. mars 1994 og er því 25 ára. Hún ólst upp í Hafnarfirði, þar sem hún er í Golfklúbbnum Keili. Foreldrar hennar eru Heiðrún Jóhannsdóttir og golfkennarinn landsfrægi og 4-faldur Íslandsmeistari í höggleik, Björgvin Sigurbergsson. Hún á einn bróður Helga Snæ, sem líka er frábær kylfingur. Óhætt er að segja að Guðrún Brá sé úr þekktustu golffjölskyldu Íslands, þar sem fjölskyldumeðlimir hampa jafnan verðlaunum í mótum.

Guðrún Brá átti afar farsælan golfáhugamannsferil, sem barn og unglingur og má í því sambandi rifja upp viðtal, sem Golf 1 tók við Guðrúnu Brá fyrir 8 árum (2012) þegar hún var búin að ná því að verða Íslandsmeistari á unglingamótaröðinni í sínum aldursflokkum 6 ár í röð!!! – Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Á árunum 2014-2017 lék Guðrún Brá í bandaríska háskólagolfinu með golfliði Bulldogs, þ.e. golfliði Fresno State University í Kaliforníu.

Eftir úrskrift úr Fresno lék Guðrún Brá mestmegnis á LET Access mótaröðinni, en einnig „Mótaröð þeirra bestu“ hér heima á Íslandi.

Í LET Access móti í Finnlandi 7.-9. júní 2018, Viaplay Ladies Finnish Open náði Guðrún Brá því að fara holu í höggi í fyrsta sinn og gerði það með stæl þ.e. í móti! Ásinn kom á par-3 15. holu Messilä Golf í Finnlandi, sem er 185 m.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir með ás!!!

Seinna árið 2018 varð hún í fyrsta sinn Íslandsmeistari í höggleik á Vestmannaeyjavelli, en í karlaflokki varð Íslandsmeistari, frændi hennar Axel Bóasson, sem spilað hefir á Nordic Golf League mótaröðinni og Áskorendamótaröð Evrópu (ens. Challenge Tour).

Axel og Guðrún Brá Íslandsmeistarar í höggleik 2018

Guðrún Brá er ekki bara góð í að spila golf – hún dúxaði einnig á golfregluprófi nýliða á LET á sl. ári, 2019 – Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Þann 11. ágúst 2019 varði Guðrún Brá Íslandsmeistaratitil sinn í höggleik, nú á Grafarholtsvelli og var hún sú eina af keppendunum, sem lék á heildarskori undir pari, þ.e. á samtals 3 undir pari.

Íslandsmeistarar í höggleik 2019 – Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR.

Guðrún Brá á einnig mörg vallarmet, en sem nýlegt dæmi um það má nefna að 8. september á sl. ári (2019) setti Guðrún Brá nýtt vallarmet af rauðum á Hólmsvelli í Leiru, sem hún lék á 68 glæsihöggum þegar hún sigraði í Ljósanæturmóti Hótel Keflavíkur & Diamond Suites.

Og nú í ár, eftir frækilega frammistöðu í lokaúrtökumóti LET, dagana 22.-26. janúar 2020, er Guðrún Brá komin með keppnisrétt á bestu kvenmótaröð Evrópu, Ladies European Tour (LET) keppnistímabilið 2020 og spennandi tímar framundan hjá henni!

26/01/2020. Ladies European Tour. Final Stage Qualifying School. La Manga Club, South Course, Spain. Jan 22-26 2020 Gudrun Bjorgvinsdottir of Iceland, tied 10th, gaining category 08 for the season, along with her father and caddy, Bjorgvin Sigurbergsson. Mynd: Tristan Jones/LET.

Golf 1 óskar Guðrúnu Brá hjartanlega til hamingju með árangurinn og óskar henni velgengni í framhaldinu ….

Í aðalmyndaglugga: Guðrún Brá á leið með að verða Íslandsmeistari í höggleik 2. árið í röð, þ.e. 2019 í Grafarholtinu. Mynd: GSÍ