Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 5. 2017 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LET 2017: Sarah Nilsson (5/66)

Lokaúrtökumót LET fór fram á golfvöllum í Samanah og Almelkis golfklúbbana í Marokkó, dagana 17.-21. desember 2016 og voru spilaðir hefðbundnir 5 hringir.

Efstu 30 í lokaúrtökumóti LET, Lalla Aicha Q-school í Marokkó hlutu fullan og næstu 36 þ.e. þær sem höfnuðu í sætum 31-66 takmarkaðan spilarétt.

Stoltið okkar, sú sem hafnaði í 2. sæti, Valdís Þóra Jónsdóttir, hefir þegar verið kynnt en nú verður hafist handa við að kynna hinar og byrjað á þeim sem rétt sluppu inn á LET.

Næst verður sá kylfingur kynntur sem var í 62. sætinu á lokaúrtökumótinu með lokaskor upp á  6 yfir pari, 366 högg (76 74 70 70 76), en það er hin sænska Sarah Nilsson.

Sarah Nilson fæddist 24. júlí 1997 í Kristianstad í Svíþjóð og á því 20 ára afmæli á árinu. Sarah er í Solvesborg GolfKlubb í Svíþjóð.

Sarah byrjaði að spila golf með fjölskyldu sinni þegar hún var aðeins 3 ára.

Sarah segir að sá aðili sem hafi haft mest áhrif á sig í golfinu sé Annika Sörenstam, en Annika ásamt Jordan Spieth eru einnig uppáhaldskylfingar Söruh. Aðrir sem hafa mótað hana eru Gunde Svan, foreldrar hennar og eldri systirin, Emma.

Eldri systir Söruh, Emma Nilsson, hefir sigrað tvívegis á LET Access.

Sarah gerðist atvinnumaður í golfi 1. janúar 2014. Hún komst á LET Access í maí 2015 og keppti í 2 mótum, þar sem betri árangur hennar var T-22 á heimavellinum á Solvesborg Ladies Open hosted by Fanny Sunnesson, en þar var hún með 3 hringi upp á 73 högg.

Þegar Sarah er ekki á golfvellinum, segist hún elska að vera í ræktinni.