Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 11. 2017 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LET 2017: Celina Yuan (64/66)

Lokaúrtökumót LET fór fram á golfvöllum í Samanah og Almelkis golfklúbbana í Marokkó, dagana 17.-21. desember 2016 og voru spilaðir hefðbundnir 5 hringir.

Efstu 30 í lokaúrtökumóti LET, Lalla Aicha Q-school í Marokkó hlutu fullan og næstu 36 þ.e. þær sem höfnuðu í sætum 31-66 takmarkaðan spilarétt.

Stoltið okkar, sú sem hafnaði í 2. sæti, Valdís Þóra Jónsdóttir, hefir þegar verið kynnt en nú verður hafist handa við að kynna hinar.

Nú erum við að kynna þær sem deildu 3. sætinu en það eru 4 kylfingar, sem allar hlutu fullan spilarétt á LET, en þær léku allar á samtals 14 undir pari, 346 höggum.

Þetta voru þær: Karolin Lampert frá Þýskalandi (68 70 73 67 68); Agathe Sauzon frá Frakklandi (71 66 67 73 69); Celina Yuan frá Ástralíu (70 66 67 72 71) og Celine Boutier frá Frakklandi 65 69 67 70 75).

Allar stúlkurnar nema Celina Yuan hafa nú verið kynntar þannig að í dag er röðin komin að Yuan.

Celina Yuan fæddist í Sydney, Ástralíu 6. janúar 1999 og er því 18 ára.

Þegar hún var 5 ára elti hún eldri bróður sinn Kevin Yuan um allt með golfkylfu og má segja að hann hafi verið kveikjan að því að Celina byrjaði í golfi. Kevin er einn af bestu karláhugakylfingum Ástralíu í dag.

Uppáhaldskylfingar Yuan eru ástralska golfdrottningin Carrie Webb og Annika Sörenstam og uppáhaldsgolfvöllurinn er í The Australian GC.  Eins eru Tiger og Lydia Ko í miklu uppáhaldi og virðist Celina vera að gera svipaða hluti og Ko.

Celina gerðist atvinnumaður í golfi í byrjun þessa árs 1. janúar 2017.

Hún hætti í 12. bekk til þess að geta gerst atvinnumaður og helgað sig golfæfingum og golfi algerlega.

Hún sagði m.a.: „Ég ætla ekki að klára 12. bekk; ég ætla bara að einbeita mér að golfi og ég vil gefa mig því alla. Án æfinga er ekkert sem sem heitir hæfileikar.

 

Meðal áhugamála Celinu utan golfsins er að ferðast og lesa góðar bækur.