Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 2. 2017 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LET 2017: Charlotte Thompson (32/66)

Lokaúrtökumót LET fór fram á golfvöllum í Samanah og Almelkis golfklúbbana í Marokkó, dagana 17.-21. desember 2016 og voru spilaðir hefðbundnir 5 hringir.

Efstu 30 í lokaúrtökumóti LET, Lalla Aicha Q-school í Marokkó hlutu fullan og næstu 36 þ.e. þær sem höfnuðu í sætum 31-66 takmarkaðan spilarétt.

Stoltið okkar, sú sem hafnaði í 2. sæti, Valdís Þóra Jónsdóttir, hefir þegar verið kynnt en nú verður hafist handa við að kynna hinar og byrjað á þeim sem rétt sluppu inn á LET.

Nú erum við að kynna þær óheppnu, sem höfnuðu í 34. sætinu og voru við það að hljóta fullan spilarétt á LET, en leika því miður allar á LET Access og hafa aðeins takmarkaðan spilarétt; þær voru allar á samtals sléttu pari, 360 höggum, hver.

Þetta eru þær: Elina Nummenpaa frá Finnlandi (68 71 72 74, 75) spænski kylfingurinn Silvia Bañon (70 75 71 69 75), franski kylfingurinn Ines Lescudier (69 76 70 72 73) og Charlotte Thompson (79 67 69 72 73) og Meghan Maclaren frá Englandi (73 67 73 75 72); Angella Then frá Bandaríkjunum (75 73 71 69 72) og Nina Muehl ( 72 71 72 69 76)

Af ofangreindum kylfingum á aðeins eftir að kynna Charlotte Thompson og Meghan Maclaren og verður byrjað á Charlotte.

Charlotte Thompson fæddist í Chelmsford, Englandi 9. ágúst 1982 og er því 34 ára.

Hún segir fjölskylda og vini hafa haft mest áhrif á golfleik sinn.

Hún segir uppáhaldsgolfvöll sinn vera á Sammanah golfklúbbnum í Marokkó og uppáhaldskylfing sinn vera Seve Ballesteros.

Charlotte gerðist atvinnumaður í golfi 26. september 2013.

Hún hefir áhuga á að sósíalisera, vera með fjölskyldu sinni og almennt lenda í ævintýrum!

Sem stendur er Charlotte nr. 450 á Rolex-heimslista kvenna.