Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 29. 2014 | 12:00

Nýju stúlkurnar á LET 2015: Heather MacRae (3/34)

Þann 17.-21. desember 2014 fór fram lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröð kvenna í Samanah Al Maaden golfklúbbnum í Marokkó.

Nánar tiltekið 2015 Lalla Aicha Tour School Final Qualifying eins og mótið heitir á ensku.

Meðal þátttakenda á lokaúrtökumótinu í ár voru tveir íslenskir kvenkylfingar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, en þær komust því miður ekki í hóp þeirra sem hlutu keppnisrétt á LET 2015.

Golf 1 mun, eins og undanfarin ár kynna allar stúlkur sem hlutu keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna (ens. Ladies European Tour skammst. LET) í gegnum lokaúrtökumótið, en í þetta sinn voru þær 34.

Byrjað verður að kynna þær 9 stúlkur sem urðu í 26.-34. sætinu; allar á  samtals 1 yfir pari, en það var skorið, sem þurfti til að komast inn á Evrópumótaröð kvenna í ár.

Tvær fyrstu af þessum 9 stúlkum hafa þegar verið kynntar þ.e. þær Laura Murray frá Skotlandi og Lucie André frá Frakklandi, en nú er komin röðin að kylfingnum Heather MacRae en hún var samtals á skorinu 1 yfir pari, 361 höggi (73 75 71 67 75).

Heather MacRae er fædd 23. september 1983 í Stirling, Skotlandi og er því 31 árs.  Hún byrjaði að spila golf 10 ára.   Pabbi hennar fór með Heather og bróður hennar á golfvöllinn frá unga aldri og Heather spilaði golf með bróður sínum og vinum hans.

MacRae var síðan í bandaríska háskólagolfinu; spilaði golf með skólaliði San Diego State, þaðan sem hún útskrifaðist með gráðu í stjórnsýslufræðum (ens.: Public Administration) árið 2008.   Sjá má helstu afrek MacRae í bandaríska háskólagolfinu með því að SMELLA HÉR:   

Sama ár gerðist MacRae síðan atvinnumaður í golfi þ.e. 2008.

MacRae hefir m.a. spilað á LET Access mótaröðinni þ.e. í 2. deild Evrópumótarðar kvenna.

Hér má sjá ágætis kynningu LET Access á Heather MacRae SMELLIÐ HÉR: