Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 2. 2012 | 20:00

Nýju stúlkurnar á LET 2012 (4. grein af 34): Miriam Nagl

Í kvöld er komið að síðustu kynningunni á 1 af stúlkunum, sem tapaði í umspili 6 stúlkna á Q-school LET fyrr á árinu þ.e. í janúar 2012 á La Manga golfvellinum á Spáni, en þessar 6 stúlkur voru í umspilinu að keppa um 2 síðustu sætin (29. og 30. sætið) í flokk 8 a, sem veitti fullan keppnisrétt á LET 2012. Búið er að kynna Carly Booth, Hönnuh Burke og Mireiu Prat sem töpuðu í umspilinu og í kvöld verður síðasta stúlkan kynnt sem tapaði í bráðabananum: þýska stúlkan Miriam Nagl. Á morgun verða sigurvegararnir 2 í umspilinu sjarmadísin Sjarmila frá Indlandi og Laura Cabanillas frá Spáni síðan kynntar.

Miriam Nagl

Miriam Nagl fæddist 22. janúar 1981 í Curitiba, Brasilíu og er því 31 árs og hefir tvöfalt ríkisfang, brasilískt-þýskt. Allt fram að 8 ára aldri ólst Miriam upp í Curitiba, í Brasilíu og var í svissneska skólaum þar. Árið 1989 fluttist Nagl fjölskyldan til Schwäbisch Hall í Þýskalandi og Miriam spilaði fyrst fótbolta til 12 ára aldurs.

Hún fór í  fyrstu golfkennslustund sína 1991. Nagl fjölskyldan fluttist þá til Berlínar og gerðist félagi í Kallin golfklúbbnum. Árið 1992 hlaut Miriam fyrst forgjöf og kom henni fljótt niður í 28. Hún byrjaði æfingar af alvöru 1993 og kom forgjöfinni í 7 á árunum 1993/1994. Hún var í úrvali þýska kvennalandsliðsins völdu af þýska golfsambandinu 1994 og 1995 tók hún þátt í European Girls Championship og European Young Masters í Wentworth.

Haustið 1995 var Miriam boðin þátttaka í Junior Ryder Cup í Oakhill/New York, þar sem hún sigraði með liði meginlandsins. Árið 1997 skipti Nagl fjölskyldan yfir í  Semlin Golfklúbbinn.

Eftir að hafa lokið 2. ári í Berlin Frohnau menntaskólanum ákvað Miriam að halda áfram æfingum með þjálfara sínum, Jonathan Yarwood hjá Leadbetter Academy Bradenton (í Flórida). Hún skipti því yfir í Bradenton High School og útskrifaðist þaðan 1999. Þar á eftir lagði hún stund á „International Business and Management“ í Arizona State University (ASU), þar sem hún var á golfskólastyrk. Í ASU spilaði hún með golfkvennaliði skólans, the Ladies Team Sun Devils.

Ári síðar var Miriam ákveðin að gerast atvinnumaður og fluttist aftur til Flórída. Hún gerðist atvinnumaður í febrúar 2001 og spilaði fyrst um sinn á Futures Tour. Hún hlaut takmarkaðan spilarétt á LPGA með góðri frammistöðu 2002.  Árið 2002 varð hún í 3. sæti á peningalista Futures og hlaut því keppnisrétt á LPGA 2003.

Hún lauk fyrsta keppnistímabili sínu á LPGA með góðum árangri; var í 79. sæti á stigalistanum, náði m.a. 10. sæti á  LPGA Williams Championship  og 11. sæti á LPGA Shop Rite Classic. Um veturinn var Miriam í ströngum æfingum hjá heilsuræktargúrúnum Kai Fusser, sem einnig þjálfar Anniku Sörenstam.

Vegna meiðsla í baki gekk ekki eins vel 2004 og í lok keppnistímabilsins var Miriam í 125. sæti á peningalistanum og var aðeins með takmarkaðan spilarétt 2005.  Hún tók því þátt í Q-school Evrópumótaraðar kvenna í nóvember 2004 og sigraði mótið.  Hún var þá í fyrsta sinn með fullan keppnisrétt á LET.

Keppnistímabilið 2005 var það besta hjá Miriam. Hún tók þátt í 24 mótum og voru 7 þeirra í Evrópu. Í Tenerife náði hún næstum 1. sigri sínum. Hún lauk tímabilinu með  $ 89,905 í verðlaunafé og í 87. sæti á peningalistanum og 2006 hafði hún fullan keppnisrétt á báðum mótaröðum, LET og LPGA tour.

Árið 2006 urðu Miriam og Anja Monke í 9. sæti á heimsbikarnum í Suður-Afríku.  Og rétt eftir heimsbikarinn varð Miriam í 6. sæti á móti í Hawaii.

Miriam slasaðist á skíðum í desember 2006 og varð því frá keppnum næstum allt árið 2007.  Hún kom aftur 2008 á LPGA en spilaði ekki vel og missti keppnisrétt sinn.

Vorið 2009 spilaði Miriam aðallega á litlum mótaröðum t.d. Suncoast Series í Flórída og vann upp sjálfsöryggið aftur. Hún spilaði líka á nokkrum mótum í Evrópu, aðallega SAS Tour. Um haustið 2009 tók Miriam aftur þátt í Q-school beggja vegna Atlantsála og náði niðurskurði á LPGA og fékk takmarkaðan spilarétt á LET. Hún fékk líka fullan keppnisrétt á Futures Tour.

Árið 2010 spilaði Miriam nær eingöngu á Futures. Hún lauk árinu í 42. sæti á peningalistanum. Hápunktar það ár voru 4. og 5. sætið á  Brownsville Open í Texas og í  Daytona Beach Invitational. Árið 2011 spilaði Miriam á LPGA Futures Tour og í janúar 2012 reyndi hún aftur fyrir sér í Q-school LET og hlaut þau örlög að tapa í 6 stúlkna umspilinu um 2 af öruggu keppnisréttarsætunum í flokki 8a á LET. Hún hefir nú takmarkaðan spilarétt í mótum LET og spilar aðallega á Futures.

Loks mætti geta að áhugamál Miriam eru sund, körfubolti, strandblak, að spila á gítar, hlusta á tónlist og verja tíma með vinum.

Heimild: Heimasíða Miriam Nagl