Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2012 | 19:30

Nýju strákarnir á PGA Tour: nr. 21 – Marco Dawson

Nú er komið að topp-10, þ.e. af þeim 29 strákum sem hlutu kortið sitt á PGA Tour 2012, eftir að hafa orðið efstir í Q-school PGA í La Quinta í Kaliforníu í desember á s.l. ári. Næst verða kynntir þeir 3 kylfingar, sem deildu 8. sætinu:

T8 T19 Bob Estes (NT) -5 F -13 67 73 69 74 69 67 419
T8 T5 Brian Harman (NT) -2 F -13 69 71 67 74 68 70 419
T8 1 Marco Dawson (NT) 4 F -13 73 68 67 67 68 76 419

Í gær var Brian Harman kynntur og í dag er það Marco Dawson. Hann leiddi fyrir lokadaginn á Q-school PGA, en afleitur hringur upp á 76 högg gerði það að verkum að hann hrundi niður skortöfluna í 8. sæti.

Marco Dawson fæddist í Freising, Þýskalandi, 17. nóvember 1963 og er því 48 ára.

Hann byrjaði í golfi 9 ára gamall eftir að fjölskylda hans fluttist til Coral Springs í Flórída en rétt hjá heimili hans var golfvöllur.

Marco gerðist atvinnumaður í golfi 1985 og er því búinn að vera atvinnumaður í 26 ár eða lengur en lífsaldur margra strákanna sem komust í gegnum Q-school með honum. Marco útskrifaðist með gráðu í markaðsfræðum frá Florida Southern College, 1985 og spilaði golf með liði skólans. Meðal félaga hans þar voru Rocco Mediate og Lee Janzen.

Marco Dawson komst fyrst á PGA Tour 1991 og var á túrnum allt til ársins 1997. Síðan hefir hann verið á túrnum með hléum 2000-2001 og 2003-2008.

Þegar Marco hefir ekki náð að endurnýja kortið sitt hefir hann spilað á Nationwide Tour eða árin 1990, 1999, 2002 og 2009-2011. Besti árangur hans á  Nationwide Tour er sigur á LaSalle Bank Open 2002.  Besti árangur hans á PGA Tour er 2. sætið á Greater Milwaukee Open, árið 1995.

Marco Dawson hefir nokkrum sinnum komist í fréttir fyrir brot á golfreglum – en brotin virðast minniháttar miðað við afleiðingarnar fyrir hann. Árið 2003 á Chrysler Classic í Tucson í mars spilaði hann við Brandel Chamblee, sem tók ólöglegt víti. Dawson var gagnrýndur fyrir að tilkynna ekki dómara um brot Chamblee fyrr en eftir að hann skrifaði undir skorkort hans sem varð til þess að honum (Dawson) var vísað úr móti. Sama ár í október var Dawson að spila við Esteban Toledo og sagði til Toledo eftir að sá síðarnefndi tók ólöglegt víti. Það hafði í för með sér að Toledo rak umboðsmann þann sem þeir deildu og eins hlaut Dawson $ 10.000 sekt fyrir að láta dómara ekki vita um brot Toledo strax.

Í dag er Marco Dawson nr. 505 á heimslistanum. Hann er kvæntur konu sinni Heather og eiga þau hjá einn son, Marco yngri og búa í Lakeland, Flórída.  En Marco er tæpast „nýr“ strákur á PGA Tour, heldur reynslubolti, sem tókst að endurnýja kortið sitt á glæsilegan hátt, en kannski ekki eins glæsilegan og hann hefði viljað, en þar skemmdi eins og áður segir lokahringurinn.

Heimild: PGA Tour og Wikipedia.