Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 11. 2019 | 18:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Sepp Straka (31/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Nú hafa verið kynntir þeir 25, sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, síðast var kynntur sá sem varð í 1. sæti peningalistans, Sungjae Im frá Suður-Kóreu.

Nú er aðeins eftir að kynna þá 25, sem urðu efstir á Web.com Finals og hlutu þannig þáttökurétt á mótum PGA Tour. Fyrst var kynntur sá sem rétt slapp í hóp þeirra 25 efstu en það var Jim Knous, síðan Fabián Gómez frá Mexíkó, kanadíski kylfingurinn Ben Silverman og bandarísku kylfingarnir Michael Hayes Thompson og Cameron Tringale.

Sá sem varð í 20. sæti á Web.com Tour Finals og sá sem kynntur verður í dag er Sepp Straka.

Sepp Straka fæddist 1. maí 1993 í Vín, Austurríki og er því 25 ára.

Straka var 14 ára þegar fjölskylda hans fluttist til Valdosta í Georgíu, í Bandaríkjunum.

Hann er 1,9 m á hæð og 107 kg.  Sepp og tvíburabróðir hans Sam spiluðu báðir í bandaríska háskólagolfinu.

Sepp Straka útskrifaðist frá University of Georgia 2016 með gráðu í viðskiptafræði (ens. Business Administration).

Sepp Straka er fyrsti Austurríkismaðurinn sem kemst á PGA Tour.