Ragnheiður Jónsdóttir | október. 13. 2022 | 18:00

Nýju strákarnir á PGA 2023 (5/50): Harrison Endycott

Nú verður fram haldið að kynna þá 25 kylfinga, sem hlutu kortið sitt á PGA Tour eftir að hafa orðið í einu af efstu 25 sætunum eftir reglulega tímabilið í 2. deildinni, þ.e. Korn Ferry Tour.

Sá fimmti, sem kynntur verður er Harrison Endycott, en hann varð í 21. sæti.

Harrison Endycott fæddist 26. maí 1996 í Sydney, Ástralíu og er því 26 ára.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi árið 2017.  Hann byrjaði á Ástralasíutúrnum var síðan 2018 og 2019 á Suður-ameríska PGA (Latino America) og 2020 var hann kominn með spilaréttindi á Korn Ferry Tour.

Endycott segir uppáhaldsgolfminningu sína vera þegar hann var í ástralska golflandsliðinu, sem vann Eisenhower Trophy 2016.

Meðal áhugamála eru fjallaklifursæfingar innandyra, að vera á ströndinni og verja tíma með vinum.

Í dag býr Endycott í Scottsdale, Arizona.