Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 2. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Tom Lewis (49/50)

Eins og á undanförnum árum hefir Golf 1 kynnt „Nýju strákana“ á PGA Tour. Kynntir hafa verið „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Nú hafa verið kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour. Eins hafa verið kynntir allir 25, sem urðu efstir á Korn Ferry Tour Finals, nema 2 efstu og verður sá sem varð í 2. sæti kynntur nú.

Sá sem varð í 2. sæti á Korn Ferry Tour Finals er Tom Lewis, sem var með 1000 stig.

Tom Lewis fæddist í Welwyn Garden City, Englandi, 5. janúar 1991 og er því 28 ára.

Árið 2009 sigraði Lewis á the Boys Amateur Championship á Royal St George’s. Árið 2010, tapaði hann fyrir Peter O’Malley í bráðabana á New South Wales Open og sama ár varð hann T-12 á Australian Open. Þessu fylgdi Lewis eftir með sigri á Old Course á St Andrews árið 2011 í  St Andrews Links Trophy.

Lewis komst í gegnum úrtökumót fyrir Opna breska 2011, sem fram fór á Royal St George’s. Á fyrsta hring var Lewis á 5 undir pari, 65 höggum og var í forystu í mótinu ásamt Thomas Bjørn. Þetta var lægsta skor áhugamanns í sögu Opna breska og jafnaði lægsta skorið í öllum risamótum. Þetta gerði Lewis að fyrsta áhugamanninum til þess að leiða í risamóti frá því að Mike Reid var í forystu 1976 á Opna bandaríska og hann var fyrsti áhugamaðurinn til þess að leiða á Opna breska frá því að Michael Bonallack var í forystu árið 1968. Einn af félögum Lewis í ráshópnum var  Tom Watson, sem hann er skírður eftir. Lewis lauk keppni T-30 og vann silfur medalíuna fyrir að vera sá áhugamaður, sem var á lægsta skorinu.

Atvinnumannsferillinn
Lewis gerðist atvinnumaður í golfi árið 2011 eftir góða frammistöðu í Walker Cup. Hann spilaði í fyrsta atvinnumannsmóti sínu á Austrian Golf Open í september, og var á 2 yfir pari, 74 höggum eftir 1. hring. Hann náði sér á strik og lauk keppni T-10. Fyrsti sigur hans sem atvinnumanns kom aðeins mánuði síðar í Portugal Masters á Evróputúrnum og var sigurskorið (70 64 68 65) og átti 2 högg á næsta mann. Þetta var aðeins í 3. atvinnumannsmóti Lewis. Í desember 2011 var hann valinn Sir Henry Cotton nýliði ársins á Evróputúrnum.

Lewis spilaði á Evróputúrnum frá árinu 2012 með litlum árangri. Hann missti kortið sitt 2016 en náði því aftur eftir góða frammistöðu í úrtökumóti.

Árið 2018 virtist Lewis aftur vera að komast í sama gamla, góða formið. Hann spilaði nokkur mót á Áskorenda- mótaröð Evrópu (ens.: Challenge Tour). Hann varð T-3 á Swedish Challenge í ágúst áður en hann sigraði á Bridgestone Challenge í september og varð T-3 á Kazakhstan Open vikuna þar á eftir. Viku síðar vann hann annan  Portugal Masters titil sinn á Evróputúrnum. hann var með 4 aðra topp-10 árangra á Evróputúrnum þ.á.m. T-5 árangur á the Sky Sports British Masters og T-7 árangur á DP World Tour Championship, í Dubai. Hann lauk árinu í 41. sæti á stigalistanum.

Nú í ár, þ.e. 2. september 2019 sigraði Lewis síðan á Korn Ferry Tour Championship og ávann sér þar með kortið sitt á PGA Tour 2019–20 keppnistímabilið.