Ragnheiður Jónsdóttir | október. 12. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: David Hearn (38/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Nú hafa verið kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour. Nú er aðeins eftir að kynna þá 25, sem urðu efstir á Korn Ferry Tour Finals og fengu kortin sín þannig.

Í dag verður kynntur sá sem varð í 13. sæti á Korn Ferry Tour Finals en það er David Hearn, sem var með 283 stig.

Hearn er sko svo sannarlega ekki einn af „nýju“ strákunum heldur aðeins einn af þeim sem endurnýjar þátttökurétt sinn á PGA Tour.

David Hearn fæddist 17. júní 1979 í Brampton, Kanada og er því 40 ára og með eldri kylfingum á PGA Tour.

Foreldrar hans eru Geoffrey og Dorothy Hearn og eiginkonan heitir Heather.

Hann er 1,85 m á hæð og 75 kg.

Hearn lék í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Wyoming.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi að lokinn útskrift 2001 og var þegar kominn á Canadian Tour þar sem hann var valinn nýliði ársins 2002.

Hearn hefir sigrað tvívegis á PGA Tour þ.e. 2013 á John Deere Classic og 2015 á Greenbrier. Eins á Hearn í beltinu einn sigur á undanfara Korn Ferry Tour þ.e. Nationwide Tour árið 2004 en það var á Alberta Classic.

Besti árangur Hearn á risamótum er T-21 árangur á Opna bandaríska 2013.