Ragnheiður Jónsdóttir | október. 17. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Anirban Lahiri (41/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Nú hafa verið kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour. Nú er aðeins eftir að kynna þá 25, sem urðu efstir á Korn Ferry Tour Finals og fengu kortin sín þannig.

Í dag verður kynntur sá sem varð í 10. sæti á Korn Ferry Tour Finals en það er Anirban Lahiri, sem var með 358 stig.

Lahiri er ekki „nýr strákur“ heldur einn sem nær að endurnýja spilaréttindin í gegnum þessa lokamótaröð á Korn Ferry Tour.

Anirban Lahiri fæddist í Pune á Indlandi 29. júní 1987 og því 32 ára.

Hann er 1,75 m á hæð.

Menntun sína hlaut Lahiri í St. James’ School í Binnaguri á Indlandi. Hann talar bæði bengölsku og punjab indversku m.a. þar sem faðir hans var í indverska hernum og hann ferðaðist mikið með foreldrum sínum í æsku.

Lahiri spilaði framan af ferlinum á Asíutúrnum, en hann sigraði í 1. sinn á þeim túr árið 2011 þ.e. á Panasonic Open og síðan aftur 2012 á SAIL-SBI Open og hefir alls sigrað á túrnum 7 sinnum.

Árið 2007 gerðist Lahiri atvinnumaður í golfi.

Besti árangur hans á peningalistanum var 24. sætið 2009.

Lahiri naut mikillar velgengni á Professional Golf Tour of India, þar sem hann hefur sigrað 12 sinnum og var efstur á stigalistanum árið 2009. Hann varð 3. á stigalistanum 2010 og í 5. sæti 2011.

Hann spilaði í 1. sinn á risamóti árið 2012 þ.e. á Opna breska sem þá fór fram á Royal Lytham & St Annes Golf Club in Lancashire.

Hann gerði sér mótið eftirminnilegt því hann komst í gegnum niðurskurð (68-72) og fór holu í höggi á par-3 9. holu 3. hrings og lauk keppni T-31 þ.e. jafn öðrum í 31. sæti.

Lahiri komst í fyrsta sinn á topp-100 á heimslistanum á ferli sínum í mars 2014 og er var árslok 2014 í 64. sæti á heimslistanum.

Lahiri sigraði í tveimur mótum Evróputúrsins snemma árs 2015:

8 Feb 2015 Maybank Malaysian Open á samtals 16 undir pari (70-72-62-68=272) átti 1 högg á Bernd Wiesberger
2 22 Feb 2015 Hero Indian Open á samtals 7 undir pari (73-65-70-69=277) eftir bráðabana við Shiv Chawrasia

Við þetta komst Lahiri 33. sætið á heimslistanum, en það var 29. mars 2015. Þetta er besti árangur hans á heimslistanum til þessa (17. október 2019.)

Þetta ár, 2015 rétt slapp Lahiri inn á Opna breska og var þátttaka hans í mótinu sérstök fyrir þær sakir að hann reif sig úr brúðkaupsferð, sem hann var í, til þess að geta tekið þátt, en hann hafði alls ekki búist við að fá að vera með – Sjá má eldri frétt Golf 1 þar um með því að SMELLA HÉR: 

Eiginkona Lahri er Ipsa Jamwal Lahiri.

Svo kom Lahiri til Íslands sumarið 2015 og spilaði m.a. Brautarholtið og lét vel af.

Lahiri náði fyrsta topp-10 árangri sínum á PGA Tour 2016 þar sem hann varð T-6 á Dean & DeLuca Invitational.

Lahiri lék síðan í sumarólympíuleikunum í Rio de Janeiro og var einn af 60 kylfingum til að keppa þar.

Hann var í fyrsta sinn í forystu eftir 54 holur á PGA Tour á  CIMB Classic árið 2017 og lauk keppni T-3.

Hann náði besta árangri sínum á PGA Tour til þessa, T-2 á Memorial Tournament 2017.

Lahiri var í liði Asíu í Forsetabikarnum 2017 eins og svo oft áður. Þetta ár 2017 náði hann besta árangri sínum á FedEx stigalistanum eða 51. sætinu.

Á 2018 keppnistímabilinu náði hann lægsta skori sínu á PGA Tour þ.e. spilaði á 61 höggi á A Military Tribute at The Greenbrier. Besti árangur hans keppnistímabilið 2018 var T-5 árangur á the CJ Cup.

Nú í 2019 varð hann eins og segir í 10. sæti á Korn Ferry Finals og endurnýjar þar með spilaréttindi sín á PGA Tour fyrir 2019-2020 keppnistímabilið.