Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Xinjun Zhang (4/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour, sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað verður á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hljóta þannig kortið sitt í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 verður byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Síðan verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar.

Sá sem varð í 22. sæti peningalistans með samtals verðlaunafé upp á samtals $188,896 (Verðlaunafé í Web.com Finals: $2,590;; Verðlaunafé á reglul. tímabili:$186,306) var kínverski kylfingurinn Xinjun Zhang.

Xinjun Zhang fæddist 10. júní 1987 í Shanxi í Kína og er því 30 ára.  Hann er 1,85 á hæð og 75 kg.

Xinjun gerðist atvinnumaður í golfi fyrir 7 árum, þ.e. árið 2010.

Hann býr í Guangdong í Kína og er einhleypur.

Hann hefir spilað á kínverska PGA frá 2014 og á Web.com Tour frá árinu 2015.

Á fyrsta keppnistímabili kínverska PGA lenti Zhang í útistöðum við dómara þegar hann skrifaði rangt undir 2 skorkort og var settur í 6 mánaða keppnisbann.