Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 27. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Martin Piller (36/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað var á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hlutu þannig kortin sín í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 var byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Hann hefir þegar verið kynntur, Chesson Hadley, efsti maður á peningalista Web.com Tour 2017.

Nú verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar, en þeir 25 hljóta einnig spilarétt og kort fyrir 2017-2018 keppnistímabilið á PGA Tour.

Sá sem var í 15. sæti og komst inn á PGA Tour í gegnum Web.com Tour finals er bandaríski kylfingurinn Martin Piller, en hann var með verðlaunafé á Web.com Finals upp á samtals $54,700.

Martin Piller er fæddur 14. nóvember 1985 í Dallas, Texas og því nýorðinn 32 ára. Hann ólst upp í Duncanville.

Hann er 1,75 m á hæð og 70 kg.

Piller spilaði í bandaríska háskólagolfinu með liði : Texas A&M University.

Martin Piller gerðist atvinnumaður í golfi 2008.

Martin hefir spilað á Web.com Tour frá árinu 2010. Hann hefir sigrað í eftirfarandi mótum þar:

2010 Stadion Classic at UGA, Cox Classic Presented by Lexus of Omaha
2014 News Sentinel Open Presented by Pilot
2015 Albertsons Boise Open presented by Kraft Nabisco, Digital Ally Open
2017 Ellie Mae Classic at TPC Stonebrae

Eins hefir Piller af og til verið á PGA Tour frá árinu 2011 – þ.e. hann rokkar milli deilda.

Hann er kvæntur LPGA og Solheim Cup stjörnunni Gerinu Piller og þau búa í Fort Worth, Texas.

Meðal áhugamála Martin Piller utan golfsins er: að stúdera biblíuna, hann er mjög trúaður og í félagsskap sem heitir: Fellowship of Christian Athletes, halda sambandi við golffélagana frá háskólaárunum, veiðar, hokkí, og trévinna.