Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 12. 2012 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum (17. grein af 21): Steven O´Hara og Jordi Garcia

Í kvöld er komið að því að kynna þá sem urðu í 5. og 6. sæti á lokaúrtökumóti Q-school Evrópumótutúrsins, á PGA Catalunya golfvellinum, í Girona á Spáni: Steven O´Hara og Jordi Garcia.

Byrjum á Steven O´Hara.

Steven O´Hara.

Steven O´Hara fæddist 17. júlí 1980 í Bellshill í Skotlandi og er því 31 árs. Steven er kvæntur konu sinni Jill og á 1 barn Logan (f. 2009). Meðal áhugamála hans fyrir utan golfið eru íþróttir almennt, tónlist og bílar.

Steven O´Hara gerðist atvinnumaður í golfi 2001. Hann byrjaði í golfi 8 ára gamall þegar hann fann gamalt sett úti í garðskúr, í vikunni þegar sýnt var frá leikjum Opna breska, en pabbi Steven og bræður spila allir golf.  Yngri bróðir Steven, Paul, þykir einstaklega hæfileikaríkur í golfi.

Undir leiðsögn þjálfara síns Ian Rae, var hann skoskur meistari 2000; hann vann  St Andrews Links Trophy árið 2001 (mótið sem Kristján Þór og Ólafur Björn tóku þátt í fyrir Íslands hönd í ár). Steven spilaði jafnframt í  Eisenhower Trophy í liði Breta&Íra áður en hann var í Walker bikars liði Breta&Íra 2001, en í liðinu voru engir aðrir en Nick Dougherty, Luke Donald, Michael Hoey, Graeme McDowell og Marc Warren.

Steven missti kortið sitt 2007 á Evróputúrnum en spilaði vel á Áskorendamótaröðinni 2008 þannig að hann sneri aftur á túrinn 2009.  Hann varð að fara í Q-school 2009 og hlaut þar 9. sætið og tryggði sér þannig kortið sitt 2010. Hann varð í 113. sæti á stigalistanum það tímabil og fékk kortið sitt fyrir 2011 keppnistímabilið, en varð nú í 131. sæti á stigalistanum og varð því aftur að fara í Q-school 2011, með þeim glæsilega árangri að hann hlaut 5. kortið þ.e. varð í 5. sæti í mótinu.  Steven O´Hara er því einn af þeim, sem reglubundið þurfa í Q-school til að halda keppnisrétti sínum.

Þá er það Jordi Garcia.

Jordi Garcia.

Jordi Garcia fæddist í Castalleon á Spáni,  24. júlí 1985 og  er því 26 ára.  Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2007. Meðal áhugamála hans fyrir utan golfið eru tennis, tónlist og fótbolti.  Sem stendur er hann nr. 898 á heimslistanum og nr. 202 á stigalista Evrópumótaraðarinnar og þarf að standa sig betur ætli hann að halda kortinu sínu 2013.

Jordi var hræddur um að ferill væri á enda 2009 þegar hann sleit liðbönd í vinstri úlnlið eftir að reyna að slá úr þungu röffi.  En hann sneri aftur með stæl og tók 6. kortið í Q-school Evróputúrsins á lokaúrtökumótinu. Hann missti næstum því af öllu 2009 keppnistímabilinu og spilaði á Áskorendamótaröðinni 2010 og hélt áfram að bæta sig 2011 og varð í 71. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.

Jordi byrjaði í golfinu vegna pabba síns, sem kenndi honum undirstöðuna og átti í kjölfarið mjög farsælan áhugamannaferil, sigraði m.a. á Spanish Amateur International Championship og French Amateur Championship árið 2006, og var sama ár í liði meginlands Evrópu í St Andrews Trophy. Jordi er félagi í sama klúbbi í Castellon og Sergio Garcia á Spáni, en þeir eru ekkert skyldir.  Gegnum Sergio kynntist Jordi hins vegar Anthony Kim og var ár hjá honum í Oklahoma 2003.  Um þann vinskap sinn segir Jordi: „AK er skrítinn náungi – hann var einu sinni í Malaga og textaði mig og sagði mér að fljúga þangað til þess að hann gæti boðið mér í mat!“

Jordi telur 24. sætið á Andalucia Open de España árið 2006 á Evrópumótaröðinni, þar sem hann spilaði sem áhugamaður, meðal besta árangurs síns til þessa.