Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 21. 2013 | 13:45

Nýju strákarnir á Evróputúrnum: Connor Arendell (20/27)

Í dag verður fram haldið að kynna þá 4  stráka, sem deildu  8.-11. sæti í Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á Catalunya golfvellinum, í Girona, á Spáni, 10.-15. nóvember 2013.

Þetta voru þeir James Morrison, Stuart Manley, Wade Ormsby og Connor Arendell, en af þeim hafa allir nema Connor Arendell þegar verið kynntir.

Allir léku þeir á samtals 12 undir pari, 416 höggum og hlutu € 4.085 í verðlaunafé.

Í dag verður Connor Arendell kynntur en hann varð í 8. sæti í Q-school, lék á (72 70 71 65 70 68).

Connor Arendell var í hóp Bandaríkjamanna sem voru næstfjölmennastir strákanna 27 sem komust á Evrópumótaröðina eða 4, næstir á eftir enskum kylingum sem voru fjölmennastir eða 5.

Connor Arendell var líka einn af aðeins 6 kylfingum sem spilaði á öllum 3 stigum úrtökumótsins og vann sér þar með svo sannarlega fyrir kortinu sínu.

Connor Arendell fæddist og ólst upp í Cape Coral, Flórída 30. mars 1990 og er því 23 ára. Hann á því sama afmælisdag og Ágúst Húbertsson, þ.e. „Gústi“ fyrrum framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis.

Hann byrjaði ungur að spila golf vegna þess að vinir hans voru allir í golfi og hann gat ekki verið með þeim nema að læra golf. Hann hafði mun meiri áhuga á hafnarbolta, bandarískum ruðningsbolta og knattspyrnu en hæfileikar hans á golfvellinum voru fljótir að koma í ljós.

Hann m.a. komst í háskóla á golfskólastyrk í University of Central Florida, þar sem hann var 4 ár í bandaríska háskólagolfinu. Arendell átti glæsilegan áhugamannsferil; komst m.a. 5 sinnum í US Amateur Championships.

Í dag býr Connor í Orlando, Flórída og er í Grand Pines golfklúbbnum.  Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2011.

Hann hefir einu sinni áður reynt fyrir sér í Q-school þ.e. 2012 en þetta er í fyrsta skipti sem hann kemst á Evróputúrinn.

Meðal áhugamála hans eru kappakstrar og að vera með vinum.