Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 26. 2012 | 19:30

Nýju strákarnir á Evróputúrnum (21. grein af 21): David Dixon varð í 1. sæti í Q-school

Í kvöld er birt síðasta greinin í kynningu á nýju strákunum á Evróputúrnum. Með þessari grein hafa allir 37 sem hlutu kortin sín gegnum Q-school evrópsku mótaraðarinnar í Girona á Spáni í desember 2011 og sem nú, keppnistímabilið 2012, spila á Evróputúrnum, verið kynntir.

Í kvöld er það sigurvegarinn Englendingurinn David Dixon!

David Dixon fæddist í Bridgwater í Somerset, á Englandi 27. mars 1977 og er því 35 ára. Dixon gerðist atvinnumaður í golfi 2001. Klúbbur Dixon heima á Englandi er Enmore GC

Dixon átti farsælan feril sem áhugamaður, en hápunktur þess ferils er vafalaust þátttaka hans í Opna breska 2001, þar sem hann hlaut silfurmedalíuna eftirsóttu og var sá áhugamaður með var með lægsta skorið.  Aðrir sigrar hans sem áhugamanns eru Lytham Trophy 2000 og sigur á South Afríka Amateur Championship 2001.

Dixon sveiflaðist nokkuð milli Evrópumótaraðarinnar og Áskorendamótaraðarinnar á árunum 2001-2007.  En árið 2008 tryggði hann sér í fyrsta sinn kortið sitt á túrnum, em sigri á Saint-Omer Open.

Sem stendur er Dixon nr. 646 á heimslistanum og nr. 215 á stigalista Evrópumótaraðarinnar.