Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2019 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2020: Jean Babtiste Gonnet (1/28)

Lokaúrtökumóti fyrir Evróputúrinn lauk á Lumine golfstaðnum á Spáni í gær.

28 kylfingar tryggðu sér fullan spilarétt á mótaröðinni og mun Golf 1, líkt og á undanförnum árum kynna alla þessa kylfinga.

Meirihluti þeirra sem komst á Evróputúrinn, með þátttöku sinni í lokaúrtökumótinu eru reynsluboltar, sem margir hafa spilað á Evróputúrnum og í nokkrum tilvikum einnig bestu mótaröð í heimi PGA TOUR.

Þátttakendur í Lokaúrtökumótinu voru sérlega sterkir í ár.

Golf 1 mun byrja á þeim sem rétt sluppu inn á mótaröðina en þeir eru 4: Jean Babtiste Gonnet frá Frakklandi, Dale Whitnell frá Englandi og Svíarnir Niklas Lemke og Rikard Karlberg. Þessir 4 deildu 25. sætinu, léku allir á samtals 12 undir pari, 416 höggum.

Byrjað verður að kynna Jean Babtiste Gonnet.

Jean Babtiste Gonnet fæddist 28. september 1982 í Cannes, Suður-Frakklandi og er því 37 ára.

Hann er 1,76 m á hæð og 70 kg.

Gonnet gerðist atvinnumaður 2004 og spilaði á Áskorendamótaröðini (ens. Challenge Tour) á árunum 2004-2006.

Hann varð í 17. sæti á stigalistanum árið 2006 og komst þannig á Evróputúrinn í fyrsta sinn 2007. Hann er því einn þeirra sem er ekki „nýr strákur“ í strangasta skilningi þess orðs.

Gonnet keppti á Evróputúrnum til ársins 2013. Besta keppnistímabil hans var 2007 þegar hann varð í 90. sæti á stigalistanum.

Það ár náði hann einnig besta árangri sínum á Evróputúrnum til þessa þ.e. T-2 árangur á Scandinavian Masters.

Hann náði ekki að endurnýja spilaréttindi sín eftir 2013 og spilaði á Áskorendamótaröðinni 2014-2016 og á Alps Tour árið 2017.

Nú er Gonnet hins vegar rétt sloppinn inn á Evróputúrinn að nýju 2020.