Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 21. 2019 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2020: Dave Coupland (8/28)

28 kylfingar tryggðu sér fullan spilarétt á Evrópumótaröðinni og mun Golf 1, líkt og á undanförnum vera með kynningu á þeim.

Meirihluti þeirra sem komst á Evróputúrinn, með þátttöku sinni í lokaúrtökumótinu eru reynsluboltar, sem margir hafa spilað á Evróputúrnum og í nokkrum tilvikum einnig bestu mótaröð í heimi PGA TOUR og voru þáttakendur í lokaúrtökumótinu því sérlega sterkir í ár.

Lokaúrtökumótið fór fram á Lumine golfstaðnum á Spáni, dagana 15.-20. nóvember 2019 að þessu sinni.

Í fyrsta sinn í golfsögunni voru 3 íslenskir keppendur á lokaúrtökumótinu: Andri Þór Björnsson, GR; Bjarki Pétursson,GKB og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Því miður komst enginn þeirra á Evróputúrinn að þessu sinni.

Golf 1 hefir þegar kynnt þá 4, sem rétt sluppu inn á Evróputúrinn: Jean Babtiste Gonnet frá Frakklandi, Dale Whitnell frá Englandi og Svíana Niklas Lemke og Rikard Karlberg. Þessir 4 deildu 25. sætinu, léku allir á samtals 12 undir pari, 416 höggum. Eins hefir Golf 1 kynnt þann sem varð í 24. sætinu, Toby Tree frá Englandi.

Næst verða kynntir þeir 8 kylfingar sem deildu 17. sætinu en það eru: Sihwan Kim frá Bandaríkjunum, Pedro Figueiredo frá Portúgal, Jonathan Caldwell frá N-Írlandi, Bradley Dredge, frá Wales; Englendingurinn Dave Coupland; Darren Fichardt, Lars Van Meijel frá Holland og Toby Tree frá Englandi. Allir léku þeir á samtals 13 undir pari, 415 höggum. Fichardt, Tree og Van Meijel hafa þegar verið kynntir.

Í dag verður kynntur sá sem landaði 21. sætinu en það er enski kylfingurinn Dave Coupland.

Dave Coupland fæddist 16. mars 1986 og er því 33 ára.

Coupland er 1,85 m á hæð.

Hann byrjaði að spila golf 12 ára; fyrst sér til skemmtunar en síðan fór hann að taka hlutunum alvarlega þegar hann sá að hann gæti átt framtíð í golfleik.

Hann vann fyrst fyrir sér sem vallarstarfsmaður en sá fljótt að golfleikurinn ætti betur við sig og fór að spila í áhugamannamótum um England.

Coupland gerðist atvinnumaður í golfi í mars 2012.

Það ár varð hann ásamt öðrum sigurvegari á úrtökumóti fyrir EuroPro Tour á Stoke by Nayland – Árið eftir 2013 sigraði hann í fyrsta atvinnumannsmóti sínu Mar Hall.com Scottish Classic. Hann varð í 4. sæti á stigalista EuroPro og ávann sér þannig fullan spilarétt á Áskorendamótaröð Evrópu, sem hann hefir mestmegnis spilað á síðan.

Coupland er sem stendur nr. 505 á heimslistanum.