Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 2. 2020 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2020: Bradley Dredge (9/28)

28 kylfingar tryggðu sér fullan spilarétt á Evrópumótaröðinni og mun Golf 1, líkt og á undanförnum vera með kynningu á þeim.

Meirihluti þeirra sem komst á Evróputúrinn, með þátttöku sinni í lokaúrtökumótinu eru reynsluboltar, sem margir hafa spilað á Evróputúrnum og í nokkrum tilvikum einnig bestu mótaröð í heimi PGA TOUR og voru þáttakendur í lokaúrtökumótinu því sérlega sterkir í ár.

Lokaúrtökumótið fór fram á Lumine golfstaðnum á Spáni, dagana 15.-20. nóvember 2019 að þessu sinni.

Í fyrsta sinn í golfsögunni voru 3 íslenskir keppendur á lokaúrtökumótinu: Andri Þór Björnsson, GR; Bjarki Pétursson,GB og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Því miður komst enginn þeirra á Evróputúrinn að þessu sinni.

Golf 1 hefir þegar kynnt þá 4, sem rétt sluppu inn á Evróputúrinn: Jean Babtiste Gonnet frá Frakklandi, Dale Whitnell frá Englandi og Svíana Niklas Lemke og Rikard Karlberg. Þessir 4 deildu 25. sætinu, léku allir á samtals 12 undir pari, 416 höggum. Eins hefir Golf 1 kynnt þann sem varð í 24. sætinu, Toby Tree frá Englandi.

Næst verða kynntir þeir 8 kylfingar sem deildu 17. sætinu en það eru: Sihwan Kim frá Bandaríkjunum, Pedro Figueiredo frá Portúgal, Jonathan Caldwell frá N-Írlandi, Bradley Dredge, frá Wales; Englendingurinn Dave Coupland; Darren Fichardt, Lars Van Meijel frá Holland og Toby Tree frá Englandi. Allir léku þeir á samtals 13 undir pari, 415 höggum. Coupland, Fichardt, Tree og Van Meijel hafa þegar verið kynntir.

Í dag verður kynntur sá sem landaði 20. sætinu en það er velski kylfingurinn Bradley Dredge.

Bradley Dredge er langt frá því „nýr strákur“ heldur bara einn af þeim, sem var að endurnýja spilaréttindi sín á túrnum.

Dredge er fæddur 6. júlí 1973 í Tredegar, Wales og því 46 ára og sá elsti sem komst inn á Evróputúrinn gegnum lokaúrtökumótið.

Hann er 1.83 m á hæð og 76 kg.

Hápunktar hans á áhugamannaferlinum eru sigrar í Welsh Boys Championship, árið 1991 og árið
1993 á Welsh Amateur Championship.

Dredge kvæntist eiginkonu sinni Germaine, 1996, árið sem hann gerðist atvinnumaður í golfi.

Bradley Dredge hefir sigrað tvívegis á Evróputúrnum: árið 2003 á  Madeira Island Open og árið 2006 á Omega European Masters, en í báðum tilvikum átti hann 8 högg á næsta keppanda.

Dredge vann einnig árið 2005 á WGC-World Cup ásamt félaga sínum Stephen Dodd.

Besti árangur Dredge á risamótum er T-27 árangur á Opna breska árið 2010.

Árið 2016 var besta ár hans á Evróputúrnum frá árinu 2007, en þá varð hann m.a. í 31. sæti á stigalistanum. Það ár varð hann í 2. sæti á Dubai Duty Free Irish Open og Made in Denmark mótunum.