Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2019 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2019: Marc Warren (9/27)

Golf 1 hefir á undanförnum árum kynnt „nýju strákana“ á Evróputúrnum og verður því fram haldið hér.

Lokaúrtökumótið í ár fór fram á Lumine golfstaðnum í Tarragona, nálægt Barcelona á Spáni, dagana 10.-15. nóvember og voru að venju spilaðir 6 hringir.

Efstu 25 og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu hlutu kortið sitt á Evróputúrnum. Í ár voru það 27 sem hlutu kortið sitt á Evróputúrnum.

Líkt og á undanförnum árum verður hafist á að kynna þá sem urðu í síðustu sætunum fyrst og endað á þeim sem sigruðu í Q-school þ.e. urðu efstir í lokaúrtökumótinu.

Í ár deildu 8 strákar 20. sætinu og komust því 27 „nýir strákar“ á Evróputúrinn í ár gegnum lokaúrtökumótið. Einn þeirra sem ekki komst að þessu sinni, þrátt fyrir frábæra spilamennsku var Birgir Leifur „okkar“ Hafþórsson, GKG.

Þeir 8 sem deildu 20. sætinu, þ.e. urðu T-20 hafa nú verið kynntir en það eru: Kristian Krogh JohannessenFilippo Bergamaschi, David Borda, Max Schmitt, Hugo León, Ben Evans, Kristoffer Reitan og Gavin Moynihan.

Í dag verður kynntur sá sem hafnaði einn í 19. sæti þeirra sem náðu inn á Evrópumótaröð karla keppnistímabið 2019 en það er skoski kylfingurinn Marc Warren.

Marc Warren fæddist 1. april 1981 í Rutherglen í South Lanarkshire, í Skotlandi og er því 37 ára. Hann ólst upp verandi mikill stuðningsmaður Rangers fótboltaliðsins.

Warren er meðalmaður 1,8 m á hæð og 76 kg.

Sem áhugamaður sigraði Warren m.a. á Doug Sanders World Boys Championship 1994 og á English Amateur Championship, 1996. Af liðakeppnum sem Warren tók þátt í, sem áhugamaður er vert að geta að hann var í sigurliði Englendinga&Íra í Walker Cup 2001 þar sem hann átti sigurpúttið.

Sem áhugamaður var Warren félagi í East Kilbride golfklúbbnum, þar sem hann var gerður að ævilöngum heiðursfélaga árið 2002.

Warren hefir sigrað tvívegis á Áskorendamótaröð Evrópu þ.e. Ireland Ryder Cup Challenge, 31. júlí 2005 eftir bráðabana við Peter Whiteford og á Rolex Trophy, 21. ágúst 2005.

Árið 2007 sigraði Warren ásamt Colin Montgomerie á Omega Mission Hills World Cup.

Eins hefir Warren sigrað þrívegis á Evróputúrnum þ.e. á EnterCard Scandinavian Masters, 6. ágúst 2006; Johnnie Walker Championship at Gleneagles, 2. september 2007 og Made in Denmark mótið 2014.

Besti árangur Warren í risamótum er T-12 árangur á PGA Championship 2013.

Í dag býr Marc Warren í Glasgow ásamt eiginkonu sinni, Lauru, sem hann kvæntist 2010.

Þrátt fyrir glæstan feril sbr. ofangreint þurfti Marc Warren í Q-school, þar sem hann nældi sér í 19. sætið og spilar því með þeim bestu í Evrópu á Evrópumótaröð karla, keppnistímabilið 2019.

Í dag (20. janúar 2019) er Marc Warren nr. 335 á heimslistanum.