Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Laurie Canter (20/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú hafa verið kynntir þeir 3 sem deildu 15. sætinu og komust þannig inn á Evróputúrinn.

Í dag verður byrjað að kynna þá sem deildu 12. sætinu á samtals 16 undir pari en það voru: Pep Angles og Gonzalo Fernandez-Castaño frá Spáni og Laurie Canter frá Englandi.

Byrjað verður að kynna Laurie Canter.

Laurie Canter fæddist 3. nóvember 1989 í Bath, Englandi og er því 28 ára. Canter veit það líklegast ekki, en hann á sama afmælisdag og Jóhannes Ármannsson, framkvæmdastjóri GB.

Laurie Canter er 1.88 m á hæð og 80 kg.

Hann byrjaði í golfi 14 ára, sem þykir frekar seint fyrir atvinnumann, en þótti stórefnilegur tennisleikari, en hann skipti tennisnum út fyrir golf.

Canter sigraði á South African Amateur Championship árið 2010, en fyrir ferðinni til S-Afríku vann hann fyrir á 9 holu golfvelli rétt hjá heimili sínu.

Eftir að sigra á Spanish Amateur Open Championship, 2011 ákvað hann að gerast atvinnumaður í golfi.

Sem fyndna/ófyndna eða sárgrætilega sögu af golfvellinum gæti Canter nefnt það þegar hann var lokaður inni á ferðaklósetti við 12. holu á elsta golfvelli heims (St. Andrews) … og það á einu elsta og virtasta risamótinu Opna breska, sem hann fékk að spila á sem áhugamaður. Þetta var árið 2010. Svona hafði hann ekki hugsað sér að þátttaka hans í fyrsta risamóti sínu yrði). Hann var þegar hálfri tylft högga yfir pari (samtals urðu þau 16 yfir par á tveimur dögum) og aðeins eitt nafn, Simon Edwards frá Wales var neðar. Hann komst ekki gegnum niðurskurð. Varð næstneðstur.

Nú í sumar fékk Canter tækifæri til að bæta úr þessu á Opna breska á Royal Birkdale og það gerði hann svo sannarlega – flaug gegnum niðurskurð og varð T-37!

Canter spilaði í einu móti á Áskorendamótaröð Evrópu 2015 en var kominn með kortið sitt á Evróputúrinn fyrir keppnistímabilið 2016 og hefir spilað á túrnum 2016 og 2017 og nú verður framhald á 2018. Í öll skiptin hefir Canter þurft að taka þátt í lokaúrtökumóti Evróputúrsins og hefir því haft fyrir kortinu sínu öll 3 skiptin!

Sem stendur er Canter nr. 644 á heimslistanum.