Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 8. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Mark Foster (25/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú nýlega voru kynntir þeir sem deildu 12. sætinu á samtals 16 undir pari en það voru: Pep Angles og Gonzalo Fernandez-Castaño frá Spáni og Laurie Canter frá Englandi.

Í dag verður fram haldið að kynna þá 3 sem deildu 9. sætinu, en þeir léku allir á 17 undir pari; en þetta eru þeir Josh Geary, frá Ástralíu; Mark Foster frá Englandi og Connor Syme frá Skotlandi. Bara á eftir að kynna Mark Foster og verður hann kynntu rí dag.

Mark Foster fæddist í Worksop í Englandi, 1. ágúst 1975 og er því 42 ára.

Hann er 1,88 m á hæð og 89 kg.

Mark er kvæntur konu sinni Sophie.

Mark átti farsælan feril sem áhugamaður í golfi og meðal hápunkta á áhugamannsferli hans eru eftirfarandi sigrar:

1992 English Boys Stroke Play Championship
1994 English Amateur
1995 English Amateur, Brabazon Trophy (jafn Colin Edwards)

Mark gerðist atvinnumaður í golfi 1995 og á 4 sigra í beltinu sem slíkur: 3 á Áskorendamótaröð Evrópu: 1997 Interlaken Open
2001 Stanbic Zambia Open og 2001 Charles Church European Challenge Tour Championship og auk þess einn á Evróputúrnum þ.e. á Dunhill Championship 2003.  Fyrstu ár sín sem atvinnumaður var Foster plagaður af bakverkjum og náði því ekki þeim árangri sem efni stóðu til.

Besti árangur Mark Foster í risamótum er T-28 árangur í Opna breska árið 2003.