Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 9. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Justin Walters (8/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

9 kylfingar deildu með sér 25. sætinu í ár; léku allir hringina 6 á samtals 13 undir pari.

Í dag verður Justin Walters frá S-Afríku kynntur en hann var einn af þeim 9 heppnu síðustu, sem hlutu kortið sitt en Ben Evans, Christiaan Bezuidenhout, Felipe Aguilar, Jazz Janewattananond, Gavin Moynihan, Matthew Nixon og Cristofer Blomstrand hafa þegar verið kynntir.

Justin Walters fæddist í Jóhannesarborg, S-Afríku 23. október 1980 og er því 37 ára.

Hann er hálfenskur og hálf-suður-afrískur.  Í S-Afríku er hann í CC Johannesburg.

Í dag býr Walters í Horley á Englandi. Hann er 1,83 m og 104 kg.

Walters á eitt barn: Liam (f. 2014).

Á yngri árum tók Walters þátt í bandaríska háskólagolfinu og spilaði með liði North Carolina State University, þar sem hann varð tvívegis All American.

Eftir útskrift spilaði Walters á Sólskinstúrnum s-afríska og í Bandaríkjunum á minni mótaröðunum og komst síðan á Áskorendamótaröð Evrópu árið 2012 og náði hæst á stigalista Evrópumótaraðarinnar þ.e. í 64. sætið árið 2013.

Hann hefir 6 sinnum tekið þátt í lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar og komist á Evróputúrinn tvívegis 2015 og 2017.

Hann hefir tvívegis lent í 2. sæti á Evróputúrnum; einu sinni á Portugal Masters árið 2013, þar sem hann tryggði sér sæti á Evróputúrnum fyrir keppnistímabilið 2014.

Sem stendur er Walters nr. 465 á heimslistanum.