Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 21. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: James Heath (14/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú hafa verið kynntir þeir 9 sem deildu 25. sætinu og rétt sluppu inn á Evróputúrinn.

Nú hafa Jonathan „Jigger“ Thomson og Matthew Baldwin frá Englandi, Matthias Schwab frá Austurríki og Henric Sturehed frá Svíþjóð verið kynntir, en þeir eru fjórir af 7 sem deildu 18. sætinu. Þessir 7 spiluðu allir á samtals 14 undir pari. Í kvöld verður James Heath kynntur.

James Joseph Heath fæddist í London 17. mars 1983 og er því 34 ára.

Hann er 1,83 m á hæð og 69 kg.

Heath býr í  Worcester Park, London í dag.

Heath byrjaði að spila golf með pabba sínum 10 ára.

Hann spilaði í Faldo Junior Series og átti farsælan feril í unglingadeildunum, en hápunkturinn þar var eflaust að sigra the English Amateur and Lytham Trophy, þar sem hann bætti fyrra mótsmet um heil 10 högg, árið 2004.

Helstu afrek Heath (6 sigrar) sem áhugamanns voru eftirfarandi:

1999 English Under 16 Championship
2001 Golf Illustrated Gold Vase
2002 Greek Amateur Open Championship, Faldo Junior Series
2004 English Amateur, Lytham Trophy

Sem áhugamaður var Heath einnig í ýmsum liðum:

Jacques Léglise Trophy (í liði Íra&Breta): 2001
Bonallack Trophy (í liði Evrópu): 2004
Eisenhower Trophy (í liði Englands): 2004
St Andrews Trophy (í liði Íra&Breta): 2004 (winners)

Heath gerðist atvinnumaður í lok árs 2004, 21 árs.

Heath spilaði í 3 mótum á Evróputúrnum sem áhugamaður 2004, en komst á Áskorendamótaröð Evrópu 2005 og var svona í meðallagi árangursríkur á fyrsta keppnistímabilinu, var í 23. sæti á stigalistanum í lok keppnistímabilsins.

Hann komst ekki á Evróputúrinn í gegnum lokaúrtökumótið og spilaði því aftur á Áskorendamótaröðinni 2006.

Næsta keppnistímabil gekk betur; hann vann fyrsta titil sinn sem atvinnumaður á Áskorendamótaröðinni þ.e.  ECCO Tour Championship í Danmörku og varð í 14. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar og vann sér þannig inn kortið sitt á Evróputúrinn í fyrsta sinn 2007.

Heath átti engu láni að fagna á nýliðaári sínu, þó honum tækist tvívegis að verða meðal 10 efstu í minniháttar mótum og var aftur kominn á Áskorendamótaröðina 2008.

Árið 2010 sigraði Heath í Aphrodite Hills – Tour Championship, sem var mót á PGA EuroPro Tour.

Annar sigur Heath á Áskorendamótaröð Evrópu kom síðan 26. júní 2016 þegar hann sigraði á  SSE Scottish Hydro Challenge.

Í ár spilar James Heath á mótaröð þeirra bestu í Evrópu með kortið sitt og fullan spilarétt og er vonandi að betur gangi en í fyrsta skiptið þegar hann spilaði á mótaröðinni fyrir 11 árum.