Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2015 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Matt Ford (24/27)

Það var enski kylfingurinn Matt Ford sem varð í 4. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Matt Ford fæddist 19. apríl 1978 í Swindon, Englandi og er því 36 ára. Ford býr í dag í Maidstone.

Matt Ford er með BSc Hons gráðu í íþróttafræðum (ens. Sports Science).

Hann komst í enska landsliðið í golfi eftir að hann bætti forgjöf sína úr 2 í +3.

Matt Ford gerðist atvinnumaður 25 ára og vann m.a. PGA National Assistants Championship á fyrsta tímabili sínu sem atvinnumaður, en við það vann hann sér inn þátttökurétt á BMW PGA Championship í Wentworth golfklúbbnum á Englandi 2005.

Ford er kvæntur Suzie og á með henni börnin Teagan (f. 2009) og Oscar (f. 2011).

Ford hefir allt frá árinu 2002 reynt að komast á Evróputúrinn en það hefir aldrei tekist fyrr en á s.l. ári, 2014.  Ford var búinn að ákveða að þetta væri í síðasta sinn sem hann ætlaði að reyna að komast inn á mótaröðina og var búinn að þiggja vinnu sem póstburðarmaður – ef þetta færi nú ekki allt að óskum hjá honum í þessari 10. tilraun hans ….. sem, sem betur fer tókst!  Ford gat varla haldið aftur af tárunum þegar hann náði draumi sínum í nóvember á s.l. ári.

Ford hefir spilað á Áskorendamótaröð Evrópu síðan 2011 og hefir tvisvar orðið í 2. sæti í á fyrstu tveimur keppnistímabilum sínum þar.

Hann náði besta árangri sínum á peningalistanum 2013 þegar hann varð í 48. sæti.

Ford er sonur atvinnumanns í fótbolta og því hafa íþróttir verið honum sem í blóð bornar.

Meðal áhugamála Ford eru fótbolti og að horfa á kvikmyndir.

Fræðast má nánar um Matt Ford með því að skoða heimasíðuna hans, sem sjá má með því að SMELLA HÉR: