Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 9. 2015 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: John Parry (22/27)

Það var enski kylfingurinn John Parry sem varð í 6. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

John Anthony Parry fæddist 17. nóvember 1986 í Harrogate á Englandi og er því tiltölulega nýorðinn 28 ára. Hann gerðist atvinnumaður árið 2007 og átti þar áður glæstan áhugamannaferil; vann m.a. danska og spænska áhugamannameistaramótin og var fulltrúi Breta og Íra í Walker Cup.

Parry vann Allianz Golf Open Grand Toulouse á Áskorendamótaröðinni 2009. Það keppnistímabil varð hann í 14. sæti á Áskorendamótaröðinni og vann sér í 1. sinn kortið sitt á Evróputúrnum.

Á nýliðaári sínu, 2011 vann Parry Vivendi Cup, fyrsta skiptið sem mótið var haldið.  Árið 2012 var ekki nógu gott og því varð Parry að fara aftur í Q-school, með þessum líka glæsilega árangri! …. Hann sigraði Q-school 2012 og flaug hann inn á Evrópumótaröðina að nýju árið 2013.

Alls hefir Parry sigrað 4 sinnum á atvinnumannsferli sínum en fyrir utan fyrrgreinda sigra á Q-school 2012, Áskorendamótaröðinni og á Evróputúrnum sigraði hann árið 2008 á Ladbrokes Masters á La Cala, á Spáni en mótið var hluti PGA EuroPro Tour.

John Parry býr í Knaresborough, í Englandi. Helstu áhugamál hans eru íþróttir almennt og tónlist. Sem stendur er Parry nr. 661 á heimslistanum.