Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 8. 2015 | 14:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Eduardo de la Riva (21/27)

Það var spænski kylfingurinn Eduardo de la Riva sem varð í 7. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni  15.-20. nóvember 2014.

Birgir Leifur okkar Hafþórsson spilaði einnig í lokaúrtökumótinu en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð að þessu sinni.

Eduardo de la Riva er fæddur 11. júní 1982 í Barcelona á Spáni og varð því 30 ára á árinu. Hann er nákvæmlega 10 árum eldri en Rúnar Arnórsson, GK og á sama afmælisdag og Geoff Ogilvy. Nýliðaár de la Riva á The European Tour var árið 2003, en hann missti kortið sitt eftir að hafa orðið 175. á peningalistanum. Hann er mikill vinur Pablo Larrazábal, sem var m.a. í  PGA Catalunya golfstaðnum til þess að sjá vin sinn (de la Riva) ná 9. sætinu og tryggja sér kortið á Evróputúrinn 2013!

Eduardo átti ansi misjafnt ár, 2012, var m.a. eftstur á Andalucia Open fyrir lokadaginn, en glutraði forystunni niður. Hann rétt missti af því að vera í 20 manna hópi kylfinga sem komst á Evróputúrinn í gegnum Áskorendamótaröðina, náði m.a. 4. sætinu í Apulia San Domenico Grand Final.

Eduardo byrjaði keppnistímabilið 2013 vel því hann var T-2 á fyrsta móti keppnistímabilsins ISPS Handa Nelson Mandela Championship í Suður-Afríku. Mótið var stytt í 36 holur vegna mikilla rigninga og með 4 undir pari, 61 höggi náði De La Riva forystunni. Hann fékk skolla á 1. holu 3 manna bráðabana, en þar kepptu Steve Webster og sigurvegarinn Scott Jamieson.

Ekki gekk nógu vel hjá de la Riva 2014 og varð hann því aftur að snúa í Q-school en líka með þessum glæsilega árangri að hann tryggði sér kortið sitt fyrir keppnistímabilið 2015!

Meðal áhugamála Eduardo er að róa, hlusta á tónlist og horfa á kvikmyndir.

Sem stendur er Eduardo nr. 321 á heimslistanum.