Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2014 | 12:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Chris Lloyd (13/27)

Chris Lloyd var í 15. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, á PGA Catalunya í Girona á Spáni.

Chris Lloyd fæddist 6. febrúar 1992 í Bristol, Englandi og er því 22 ára. Það var afi hans, sem kynnti hann fyrir golfinu „í raun áður en ég gat gengið“ eins og Chris segir. Síðan tók pabbi hans við að þjálfa hann. Heima í Englandi er Chris í Kendleshire golfklúbbnum. Chris var m.a. í Junior Ryder Cup liði Evrópu og spilaði í liði Bretlands&Írlands í Jacques Leglise Trophy 2009.

Chris gerðist atvinnumaður fyrir 4 árum, þ.e. 2010, aðeins 18 ára. Hann spilaði í fyrsta móti sínu á Evrópumótaröðinni 2012 þ.e. Nelson Mandela Championship í Suður-Afríku og náði þeim glæsilega árangri að verða T-39 og vinna sér inn € 4.200 (u.þ.b. 700.000 íslenskar krónur). Hann er sem stendur nr. 832 á heimslistanum.

Chris tók fyrst þátt í Q-school Evrópumótaraðarinnar 2010 og 2011, en komst fyrst í gegn í þriðja skiptið þ.e. 2012. Í millitíðinni var hann búinn að safna reynslu á Áskorendamótaröð Evrópu þar sem hann komst nálægt fyrsta sigri sínum 2011 á Mugello Tuscany Open og  eins 2012 á Pacific Rubiales Colombia Classic. Það munaði aðeins örlitlu í bæði skiptin að hann kæmist á Evrópumótaröðina í gegnum peningalista Áskorendamótaraðarinnar.

Nú er Chris Lloyd hins vegar kominn á Evrópumótaröðina keppnistímabilið 2014-2015.