Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2013 | 12:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Patrik Sjöland (12/27)

Í dag verður byrjað  á því að kynna þá 5 stráka, sem urðu í 12.-16. sæti í Q-school Evrópumótarðarinnar, sem fram fór á Catalunya golfvellinum, í Girona, á Spáni, 10.-15. nóvember 2013.

Þetta voru þeir Patrik Sjöland, Brinson Paolini, Jens Dantrop, Simon Wakefield og James Heath.

Byrjað verður á því að kynna þann sem varð í 16. sæti – Patrik Sjöland, sem var einn af 3 Svíum sem komust í gegnum Q-school að þessu sinni. Af þeim 27 „strákum“ sem komust í gegnum Q-school  var Patrik jafnframt elstur eða 42 ára,  en hann er fæddur í Borås í Svíþjóð, 13. maí 1971. Patrik hefir farið í Q-school Evrópumótaraðarinnar 10 sinnum frá því að hann gerðist atvinnumaður 1990.

Sjöland spilaði fyrst um sinn á Áskorendamótaröðinni og komst ekki á Evrópumótaröðina fyrr en 1996. Eitt besta ár hans á túrnum var árið 1998 þegar hann varð nr. 5 á peningalista Evrópumótaraðarinnar og var meðal efstu 50 á heimslistanum. Eftir slæmt ár 2005 missti hann kortið sitt og spilaði aðeins í 2 mótum 2006. Hann kom sér hins vegar aftur á túrinn eftir að hafa farið í Q-school í árslok 2006.  Hann hélt því samt ekki og varð aftur að fara í Q-school 2007 þar sem hann nældi sér í kortið góða aftur, m.a. með glæsierni sem hann náði með 7-járns höggi. Sagan endurtók sig samt aftur 2008 en hann komst þá ekki í gegnum Q-school og hafði takmarkaðan spilarétt 2009.

Sjöland hefir á ferli sínum sigrað tvívegis á Evróputúrnum,  European Tour, þ.e. 3. maí 1998 á Italian Open og síðan aftur 2. júní 2000 á Irish Open. Sjöland hefir sigrað í nokkrum alþjóðlegum mótum m.a. árið 1999 þegar hann sigraði á Hong Kong Open.

Alls hefir hann sigrað í 7 mótum sem atvinnumaður á ferli sínum og besti árangur hans í risamóti er T-18 árangur í Opna breska. Það er því varla hægt að tala um Sjöland sem „nýjan“ strák á Evróputúrnum, nýr ekki nema í þeim skilningi að hann er einn af þeim sem fékk kortið sitt fyrir 2014 keppnistímabilið!

Patrik Sjöland á synina Hugo (f. 2000) og Ludvig (2003) og býr í Gislaved í Svíþjóð.  Áhugamál hans utan golfsins eru hokkí, skíði, lestur góðra bóka, tónlist og reyndar allar íþróttir. Heima í Svíþjóð er hann í Isaberg GK.