Lucas Bjerregaard
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 28. 2013 | 08:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Lucas Bjerregaard (7/27)

Nú verður hafist við að kynna þá 5 stráka sem urðu í 17.-21. sæti í lokamóti  Q-school Evróputúrsins, sem fram fór 10.-15. nóvember s.l.. Þetta eru þeir Lucas Bjerregaard frá Danmörku, Thomas Pieters frá Belgíu, Daniel Brooks frá Englandi, Andreas Hartö frá Danmörku og Kevin Phelan frá Írlandi.  Allir léku þeir hringina 6 á PGA Catalunya golfvellinum í Girona á Spáni, á  samtals 10 undir pari, 420 höggum.

Við byrjum á Dananum Lucas Bjerregaard en tveir, þ.e. hann og Andreas Hartö voru einu Danirnir af stákunum 27 sem hlutu kortin sín á Evróputúrinn fyrir keppnistímabilið 2014.

Lucas Bjerregarrd fæddist í Fredrikshavn, Danmörku 14. ágúst 1991 og er því aðeins 21 árs. Í dag býr hann í Álaborg og er í Lubker golfklúbbnum. Lucas gerðist atvinnumaður fyrir 2 árum, 2011, en er þegar í dag í 495. sæti á heimslistanum. Sem áhugamaður tók Bjerregaard m.a. þátt í Eisenhower Trophy 2008 og Jacques Leglise Trophy 2009.  Hann átti glæsilegan áhugamannsferil og sem áhugamaður var hann með +5 í forgjöf og vann m.a.  European Amateur Championships, 2010 og fjölmörg mót í heima í Danmörku.

Bjerregaard hefir reynt í tvö skipti áður að komast inn á Evróputúrinn þ.e. 2011 og 2012, en án árangurs.

Hann var nýliði á Áskorendamótaröð (ens. Challenge Tour) árið 2012 og lauk keppnistímabilinu í 34. sæti á peningalistanum eftir að hafa náð 2. sætinu í  National Bank of Oman Golf Classic. Hann varð T-18 á  Dubai Festival City Challenge Tour Grand Final 2013 og fór því í góðu formi í Q-school nú í nóvember.  Að komast á Evrópumótaröðina í gegnum Q-school er meðal hápunkta stutts ferils Bjerregaard, sem atvinnumanns en aðrir eru sigur hans á Nordea túrnum 2012 og að hafa sama keppnistímabil (2012)  verið valinn nýliði ársins á Ecco túrnum.

Meðal áhugamála Bjerregaard utan golfsins eru lyftingar.