Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2013 | 16:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Thomas Pieters (8/27)

Nú verður fram haldið að kynna nýju strákana á Evróputúrnum 2014 þ.e. þá 27 sem fengu kortin sín á Evrópumótaröðina fyrir keppnistímabilið 2014 í gegnum lokaúrtökumót Q-school, sem fram fór á PGA Catalunya golfvellinum í Girona, Spáni.

Haldið verður áfram að kynna þá 5 stráka sem urðu í 17.-22. sæti og voru allir á samtals 10 undir pari, 418 höggum.  Thomas Pieters frá Belgíu var einn þeirra, (lenti í 20. sæti með hringi upp á 64 73 72 68 68 73).

Thomas Pieters fæddist í Geel, Belgíu 27. janúar 1992 og er því 21 árs. Hann býr í Niijen í Belgíu og er þar í golfklúbb sem heitir BeGold/Top Golf Vlaanderen. Hann er meðal hávöxnustu kylfinga á túrnum 1,96 á hæð og 85 kg.   Pieters byrjaði að spila golf 5 ára þar sem golf var fjölskyldusportið.  Hann ferðaðist m.a. með fjölskyldunni til Suður-Afríku og spilaði þar, sem og í öðrum fjölskyldufríum.

Pieters var eini Belginn sem komst í gegnum Q-school og hlaut kortið sitt á Evrópumótaröðinni að þessu sinni og hann er 1 af aðeins 6 kylfingum sem komust í gegnum öll 3 stig úrtökumótsins. Hann er reyndar aðeins 2. Belginn sem spilar á Evrópumótaröðinni … hinn er Ryder Cup stjarnan Nicolas Colsaerts. Thomas Pieters komst inn á Evrópumótaröðina í 1. tilraun sinni.

Pieters gerðist atvinnumaður í ár, 2013, eftir langan og farsælan áhugamannsferil m.a. í bandaríska háskólagolfinu. Hann m.a. vann menn á borð við Jordan Spieth og Patrick Cantlay þegar hann sigraði í 1. deild bandaríska háskólagolfsins á 2. ári sínu í University of Illinois.

Meðal áhugamála Thomas Pieters utan golfsins eru snjóbrettaferðir.  Frábær kylfingur hér á ferð sem gaman verður að fylgjast með.