Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 30. 2013 | 11:30

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Gary Stal – (24/27)

Í  dag verða kynntir þeir „strákar“, sem urðu í 3. og 4.   sæti í Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á Catalunya golfvellinum, í Girona, á Spáni, 10.-15. nóvember 2013. Á morgun ljúkum við árinu og kynningu á nýju „strákunum“ sem hlutu kortin sín í Q-school Evróputúrsins fyrir 2014 með því að kynna þá sem urðu í 1. og 2. sæti.

Byrjað verður á kynningu á Gary Stal sem varð í 4. sæti.

Hann lék á samtals 14 undir pari, 414 höggum  (71 68 69 68 68 70) og hlaut € 7.200,- í verðlaunafé.

Gary Stal  fæddist í Decines nálægt Lyon í Frakklandi 9. febrúar 1992 og er því 21 árs og litlu eldri en hinn Frakkinn, sem komst að þessu sinni á Evrópumótaröðina, Adrien Saddier. Stal gerðist atvinnumaður í golfi 2012.  Áður en hann gerðist atvinnumaður var hannm.a.  búinn að sigra  French Amateur Championship, þ.e. franska áhugamannameistaramótið í höggleik árið 2011 og átti 8 högg á þann sem næstur var. Áhugamannsferillinn var einkar glæsilegur.

Heima í Frakklandi er Gary Stal í GC de Lyon.

Hann spilaði í fyrra á Áskorendamótaröðinni og vann fyrsta mót sitt, þar sem hann tók þátt í boði styrktaraðila,   Kärnten Golf Open, í júní 2012. Strax í mánuðnum þar á eftir nældi Stal sér í 2. sigur sinn á Credit Suisse Challenge, þar sem hann sigraði Alexandre Kaleka í bráðabana og fékk kortið sitt á Evróputúrinn fyrir keppnistímabilið 2013.  Honum gekk heldur brösulega þar og varð að fara í Q-school og flaug í gegn sbr. 4. sætið!  Pabbi Stal er kaddý hjá honum.

Meðal áhugamála Gary Stal eru tónlist og að spila tennis.