Alastair Forsyth
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 18. 2013 | 09:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Alastair Forsyth (1/27)

Skotinn Alastair Forsyth var sá síðasti af 27 strákum til þess að komast á Evrópumótaröðina og hljóta keppnisrétt þar árið 2014.  Hann er einn af 6 strákum sem urðu í 22.-27. sæti í lokaúrtökumótinu í Girona, á Spáni, en það fór fram 10.-15. nóvember s.l.  Lokaskor Forsyth var 9 undir pari, 419 högg (65 70 70 69 71 74) og það rétt dugði.

Forsyth er fæddur 5. febrúar 1976 og því 37 ára.  Hann er 1,88 á hæð og 89 kg. Sem stendur er hann nr. 843 á heimslistanum.

Forsyth byrjaði 8 ára að spila golf, en aðalhvatamaður þess að hann tæki upp golfíþróttina var pabbi hans, Alex, sem þá var kominn á eftirlaun og er fyrrverandi lögga í Glasgow. Forsyth byrjaði í Ralston golfklúbbnum.  Hann spilaði sem áhugamaður í öllum unglingaflokkum í Skotlandi. Árið 1999 (þegar Forsyth var 23 ára) ári eftir að hann gerðist atvinnumaður í golfi varð Forsyth efstur á stigalista MasterCard Tour og eins efstur á peningalista Tartan Tour í Skotlandi og varð síðar það ár (1999) 2. Skotinn í röð til þess að sigra á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar.

Það var viðbúið að Forsyth myndi hljóta Sir Henry Cotton nýliðaverðlaunin árið 2000, þar sem hann var búinn að vera efstur og eiginlega hálföruggt að honum myndi hlotnast heiðurinn, en Ian Poulter hreppti þau af honum á síðustu metrunum.

Helsta áhugamál Forsyth utan golfsins er fótbolti og er hann mikill stuðningsmaður Glasgow Rangers.

Forsyth hefir sigrað tvívegis á Evróputúrnum á Carlsberg Malaysian Open árið 2002 og á Madeira Open 2008. Auk þess var hann með 4 topp-10 árangra yfir tímabil 5 móta í röð sem hann lék í,  í apríl og maí 2009, en það ásamt framantöldum sigrum á Evrópumótaröðinni eru hápunktar ferils hans.

Á tímabili var þjálfari Forsyth, Bob Torrance (fyrirliði liðs Breta&Íra í Seve Trophy 2013), en Forsyth sneri sér að lokum, árið 2008, til fyrrum þjálfara síns, Ian Rae.

Forsyth er kvæntur Allison (giftust 2009) og á með henni dótturina Charlotte (f. 2009).