Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 24. 2012 | 16:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2012 (2. grein af 21): Andrew Marshall og Tim Sluiter

Hér verður fram haldið að kynna „nýju“ strákana á Evrópumótaröðinni 2012, þ.e. þá sem komust í gegnum lokaúrtökumót á PGA Catalunya golfvellinum í Girona á Spáni s.l. desember. Hér verða þeir kynntir sem urðu í 35. og 34. sæti af 37 sem hlutu kortin sín að þessu sinni.

Fyrst er það Englendingurinn Andrew Marshall sem varð í 35. sæti:

Andrew Marshall

Andrew er fæddur 24. ágúst 1973 í Sutton-in-Ashfield í Englandi og er því 38 ára. Hann er frekar lítill og léttur kylfingur, 1,75 á hæð og 66 kíló. Áhugamál hans eru ræktin, kvikmyndir, tónlist og stjörnufræði. Fræðast má nánar um Andy Marshall á heimasíðu hans með því að smella HÉR:

Andrew gerðist atvinnumaður í golfi 1995. Hann er í dag nr. 507 á heimslistanum og býr í East Dereham á Englandi.  Hann er einn af þeim sem „rokkar til“ er ýmist á túrnum eða utan hans og hefir þurft að fara í Q-school oft á ferlinum þ.e. árin: 1996, 1997, 1998, 1999, 2000, 2002, 2007, 2008 og 2009.

Í Q-school í desember á s.l. ári sýndi hann stáltaugar þegar hann varð að fá par á síðustu tvær holurnar, en var í ómögulegri legu á þeirri 17.  Hann hjó boltann sinn af mikilli hörku úr runnagróðri sem boltinn fór í, chippaði boltann á flötina og einpúttaði fyrir pari. Á 18. varð hann að setja niður 5 metra pútt, en eftir svaðilfarir af teig og enn setti hann púttið niður. Þrjú keppnistímabil þar áður spilaði Andrew á Áskorendamótaröðinni með litlum árangri.

Andrew vann fyrst kortið sitt á Evrópumótaröðina 2001, en lauk keppnistímabilinu í 133. sæti. Hann varð því aftur að fara í FQ-school 2002 og varð í 107. sæti í lok 2003 keppnistímabilsins. Á næstu árum var hann inni þ.e. í 90. sæti (2004), 105. sæti (2005) og síðan var besta ár hans 2006 þegar hann var í 73. sæti.  Öll ár þar á eftir þurfti hann að fara í Q-school – en 2009 ákvað hann að spila sem fyrr segir á Áskorendamótaröðinni og rétt datt inn aftur í ár í gegnum Q-school.

Andrew er enn með sama þjálfara sem hann hefir haft allt frá byrjun, Steve Beckham í Barnham Broom. Klúbbfélagar aðstoðuðu hann 2001 og hlupu undir bagga með kostnað og keyptu hlutabréf á 500 pund til þess að hann gæti staðið undir kostnaði. Hann varð í 4. sæti á Áskorendamótaröðinni það ár og vann sér inn £75,840 og launaði félögum sínum greiðan með því að bæta ríflega vöxtum á bréf þeirra, sem studdu hann.

Hinn kylfingurinn sem kynntur verður í dag er einn af 5 Hollendingum hvorki meira né minna af 37, sem hlutu kortin sín á Evrópumótaröðina, keppnistímabilið 2012 Tim Sluiter:

Tim Sluiter fæddist í Enschede í Hollandi, 17. maí 1989 og er því 22 ára. Hann er 1,84 m og 80 kíló. Áhugamál hans utan golfsins eru fótbolti og skíði. Uppáhaldsliðið hans í Hollandi er FC Twente

Til þess að fræðast nánar um Tim Sluiter skoðið heimasíðu hans HÉR: 

Á unglingsárum valdi hann golf en hann skaraði líka fram úr í tennis og hokkí. Systir hans spilar í efstu deild í Hollandi í hokkí, sem er mikið fjölskyldusport Sluiter-fjölskyldunnar.

Tim er í Golf Team Holland. Sem áhugamaður hjálpaði hann m.a. hollenska landsliðinu að vinna Eisenhower Trophy í Suður-Afríku 2006.

Tim spilaði golf í bandaríska háskólagolfinu en hann var við nám í Universtity of Southern California.

Tim gerðist atvinnumaður 2009 og er í dag nr. 579 á heimslistanum. Hann komst reyndar á Evrópumótaröðina í fyrstu tilraun 2010 en varð 176. á Race to Dubai og fékk ekki að halda kortinu fyrir keppnistímabilið 2011. Hann varð því að fara aftur í Q-school 20111 og rétt náði að komast inn, varð í 34. sæti og spilar því á Evrópumótaröðinni 2012.