Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 8. 2012 | 18:30

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2012 (7. grein af 21): Scott Pinkney og Alex Haindl

Í kvöld verður fram haldið að kynna nýju strákana á Evróputúrnum, sem hlutu kortið sitt á Evrópumótaröðina í gegnum Q-school fyrir keppnistímabilið 2012.  Spilað var eins og áður á PGA Catalunya golfvellinum, í Girona á Spáni 30. nóvember – 5. desember 2011. Byrjum kynninguna á Alex Haindl.

Alex Haindl

Alex Haindl fæddist 3. febrúar 1983 í Durban, Suður-Afríku og er því 29 ára. Í Suður-Afríku er hann félagi í Schoenman Park GC.

Alex hefir spilað á Sólskinstúrnum suður-afríska allt frá því hann gerðist atvinnumaður árið 2000. Besti árangur hans á mótaröðinni var 2006/2007 þegar hann varð í 9. sæti á stigalistanum. Besti árangur hans á Evrópumótaröðinni er T-4 árangur á Joburg Open, árið 2007.
Meðal áhugamála Alex fyrir utan golf er motorcross.  Alex kvæntist konu sinni Maggie, 2007 og þau búa bæði í Bloemfontein í Suður-Afríku og við Langsee í Austurríki.
Í dag er Alex nr. 326 á heimslistanum.  Nú í síðasta móti Evrópumótaraðarinnar Open de España í Sevilla varð Alex í 32. sæti.  Besti árangur hans það sem af er keppnistímbilsins er 17. sætið á Open de Andalucia Costa del Sol.

Lesa má meira um Alex Haindl á heimasíðu hans HÉR:

Scott Pinkney

Scott Pinkney

Scott Pinkney fæddist 13. mars 1989 og er því 23 ára. Hann er félagi í The Karsten GC í ASU. Scott gerðist atvinnumaður í golfi í júlí 2011.

Scott Pinkney varð í 24. sæti í Q-school s.l. desember.  Árangur hans er frábær í ljósi þess að hann hóf daginn á því að vera í 66. sæti en var ásamt öðrum á besta skori lokahringsins, 65 höggum og kleif upp skortöfluna í 24. sæti.

Eftir að ljóst var að hann hefði tryggt kortið sitt á Evrópumótaröðina fékk Scott heillaóskaskeyti frá Rory McIlroy, en þeir hafa verið góðir vinir allt frá því að þeir hittust fyrst 9 ára gamlir á Junior Publix á Doral í Miami, þar sem Rory vann 10-11 ára aldursflokkinn og Scott varð í 2. sæti. Tveimur árum síðar, árið 2000, bjó Rory í 3 mánuði hjá Pinkney fjölskyldunni í Utah, þar sem strákarnir spiluðu golf allan liðlangan daginn. Rory og Scott hafa verið vinir allar götur síðan. Scott tók þátt í fyrsta risamóti sínu, US Open Championship, sem Rory vann með 8 höggum.

Líkt og Paul Casey og Phil Mickelson var Scott Pinkney í Arizona State University (ASU) og spilaði golf öll ár sín þar með The Sun Devils. Hann vann m.a 107. Trans-Mississippi Championship, lokaár sitt í ASU. Scott varð meðal 10 efstu í 12 af 40 mótum sem hann tók þátt í á háskólaárum sínum, þ.á.m. 5 sinnum keppnistímabilið 2010/2011.

Lesa má meira um Scott Pinkney á heimasíðu hans HÉR: