Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 7. 2012 | 20:30

Nýju strákarnir á Evróputúrnum (15. grein af 21): Gary Orr og Emiliano Grillo

Hér verður fram haldð að kynna nýju strákana á Evróputúrnum, sem komust í gegnum Q-school Evróputúrsins, 10.-15. desember 2011 í Girona á Spáni í desember s.l.

Í kvöld verða þeir kynntir sem urðu í 8. og 9. sætinu á lokaúrtökumótinu á PGA Catalunya; þ.e. Gary Orr og Emiliano Grillo.

Byrjum á Emiliano Grillo.

Emiliano Grillo.

Emiliano Grillo er frá Argentínu og fæddist 14. september 1992. Hann er því 19 ára.

Ákvörðun hans að flytjast að heiman 14 ára frá heimabæ sínum til argentínsku höfuðborgarinnar Buenos Aires, þannig að hann gæti spilað golf hefir borið ávexti þegar hann hlaut 9. sætið á Q-school Evrópuraðarinnar.  Hann sagði síðar í viðtali að val hans hefði verið „afgerandi þáttur í því að verða atvinnukylfingur.“ Hann var á 65 höggum á 5. hring sínum á PGA Catalunya.

Grillo fluttist til Bandaríkjanna þegar hann var 16 ára til að skerpa á golfleik sínum eftir að hafa varið árinu þar á undan að ferðast milli Argentínu og David Leadbitter Golf Academy í Flórída.

Grillo var fulltrúi Argentínu sem áhugamaður og vann Tarra Cotta Invitational í Naples, Flórída í apríl 2011. Í september í fyrra gerðist hann atvinnukylfingur. Emiliano Grillo er mikill stuðningsmaður fótboltaliðsins River Plate.  Þess mæti geta að Emiliano er að gera virkilega góða hluti á Nordea Masters, sem er mót helgarinnar á Evróputúrnum.  Sem stendur, eftir 1. dag, deilir Grillo 5. sætinu ásamt 4 öðrum kylfingum og er til alls líklegur.

Hinn kylfingurinn sem kynntur verður varð í 8. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar: skoski kylfingurinn Gary Orr.

Gary Orr.

Gary Orr fæddist 11. maí 1967 og er því nýorðinn 45 ára.  Orr gerðist atvinnukylfingur 1988 eða fyrir 24 árum. Hann byrjaði, sem aðstoðarkennari í Burhill Golf Club í Surrey. Sem stendur er hann nr. 349 á heimslistanum.

Orr er kvæntur Söruh (frá árinu 1998) og á með henni synina Jamie (f. 2000) og Bobby William (f. 2003).

Meðal áhugamála hans eru flestar íþróttir, tónlist og góður matur.  Sem áhugamaður var Orr fulltrúi Skotlands á öllum stigum.

Orr komst fyrst á Evróputúrinn fyrir 20 árum, eða 1992.  Þá varð hann í 30. sæti á stigalistanum og var valinn Sir Henry Cotton nýliði ársins.  Hann er því ekki „nýr“ á Túrnum, heldur einn af gömlu hundunum sem tókst að endurnýja kort sitt.

Hann hefir tvívegis sigrað á Evróputúrnum og var nálægt því að sigra aftur á The 2009 European Open, aðeins 1 högg skyldu hann og Frakkann Christian Cévaër að.

Árið 2010 spilaði hann aðeins í 11 mótum og komst aðeins 5 sinnum í gegnum niðurskurð vegna þess bakmeiðsl, sem fyrstu fóru að hrjá hann 2007 gerðu vart við sig aftur. Hann hlaut undanþágu af læknisfræðilegum ástæðum fyrir keppnistímabilið 2011. Hann varð í 137. sæti á stigalista Evrópumótarðarinnar, The Race to Dubai í lok s.l. árs og varð því að fara í Q-school og tók þar 8. kortið sem í boði var, s.s. áður er komið fram.