Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 5. 2012 | 19:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum (14. grein af 21): Guillaume Cambis og Branden Grace

Í dag verða þeir Guillaume Cambis og Branden Grace  kynntir, en þeir komust í gegnum Q-school Evróputúrsins í Girona á Spáni, 10.-15. desember sl.

Byrjum á Guillaume Cambis.

Guillaume Cambis.

Frakkinn Guillaume Cambis fæddist 3. júlí 1988 og er því 23 ára. Hann byrjaði að spila golf 3 ára þegar pabbi hans fór með hann í fyrsta sinn á golfvöllinn í Meaux sem er í norðausturhluta Parísar. Líkt og landar hans Grégory Havret, Charles-Edouard Russo og besti vinur hans Romain Wattel er hann í Bussy-St-Georges golfklúbbnum í útjaðri Parísar.

Eftir að hafa tvívegis sigrað á Alps Tour 2011 og hafa orðið í efsta sæti stigalistans fór hann í Q-school og varð T-1 á 2. stigi ásamt Luke Goddard. Á lokaúrtökumótinu á PGA Catalunya Resort í Girona á Spáni varð Cambis í 10. sæti og spilar því á Evróputúrnum í ár.

Meðal helstu áhugamála hans er að hlusta á klassíska tónlist, spila póker og drekka klassavín.  Helsta átrúnaðargolf hans er Rory McIlroy, sem hann spilaði við í fyrsta sinn á Lytham Trophy, árið 2007, þegar Lloyd Saltman vann.

Næsta mann þarf vart að kynna, hann hefir séð um kynningu á sér sjálfur í ár, en hér er verið að tala um Branden Grace, frá Suður-Afríku, sem oft er nefndur „Amazing Grace“ af aðdáendum.

Branden Grace.

Branden Grace.

Branden Grace fæddist 20. maí 1988 í Pretoríu í Suður-Afríku og er því nýorðinn 24 ára. Sem áhugamaður tók hann þátt í Ernie Els og Fancourt Foundation. Grace er suður-afrískur meistari í höggleik 2006 og gerðist atvinnumaður 2007. Fyrst spilaði hann á Áskorendamótaröðinni, en síðan á Sólskinstúrnum, þar sem hann á í beltinu 2 sigra. Í Girona í lokaúrtökumóti Q-school varð hann í 11. sæti. Síðan strax sem nýliði á Evróputúrnum í ár er hann búinn að sigra á 3 mótum: Joburg Open, 15. janúar 2012; Volvo Golf Champions 22. janúar og Volvo China Open 22. apríl 2012. Hann á nánast vísan nýliðabikarinn á Evróputúrnum og það lá nánast ljóst fyrir þegar aðeins þriðjungur af árinu var liðinn.

Nánar verður fjallað um Branden Grace síðar í greinaflokknum Hver er kylfingurinn? á Golf1.

Til þess að sjá úrslitin á lokaúrtökumóti Q-school smellið HÉR: