Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 30. 2012 | 21:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum (12. grein af 21): Matthew Nixon og Bernd Ritthammer

Í dag verður fram haldið kynningu á nýju strákunum á Evróputúrnum 2012, sem hlutu kortið sitt á lokaúrtökumóti Q-school túrsins í Girona, á Spáni 10.-15. desember á s.l. ári.

Í kvöld verða Matthew Nixon og Bernd Ritthammer kynntir.

Byrjum á Bernd Ritthammer, sem varð í 15. sæti í Q-school og keppir því á Evróputúrnum keppnistímabilið 2012.

Bernd Ritthammer

Bernd Ritthammer fæddist í Nuremberg, Þýskalandi 18. apríl 1987 og er því 25 ára. Hann byrjaði að spila golf 3 ára og var ákveðinn í að ljúka námi áður en hann helgaði sig golfinu.  Hann afþakkaði þó golfskólastyrk við bandarískan háskóla og taldi að ef hann gerðist atvinnumaður sem fyrst myndi hann öðlast dýrmæta reynslu. Hann byrjaði fyrst á EPD túrnum (þeim sama og Stefán Már Stefánsson og Þórður Rafn Gissurarson eru búnir að spila á í vetur) áður en hann komst á Áskorendamótaröðina 2009. Í dag býr Ritthammer í Gunzenhausen í Þýskalandi. Áhugamál hans auk golfsins eru íþróttir almennt, sérstaklega strandblak en líka að vera með vinum sínum.   Ritthammer gerðist atvinnumaður í golfi 2006 og hafði fyrir utan Q-school 2011 tvívegis áður reynt að komast á Evróputúrinn í gegnum Q-school (2008 og 2009 með litlum árangri)

Hann spilaði því á Áskorendamótaröðinni og segir að árangur sinn á Kazakhstan Open 2011 hafi markað vendipunkt á ferlinum. Eftir 1. hring upp á 74 högg var hann á skori undir 70:  66, 68, 68 og lauk keppni í 3. sæti. Þetta var stærsti sigur hans til þessa og stærsti verðlaunatékkinn €26,000. Hann varð í 34. sæti á stigalistanum en tók eins og áður segir 15. kortið á Evróputúrnum.

Bernd Ritthammer var í raun að berjast um toppsætið í Q-school fyrir lokahringnum á PGA Catalunya Resort, en hikstaði eitthvað á lokasprettinum og lauk hringnum á +5 yfir pari, 77 höggum og hrundi niður skortöfluna.

Bernd Ritthammer segir foreldra sína, sem báðir spila golf og þjálfara sinn hafa haft mest áhrif á feril sinn. Í dag er Bernd Rittahammer nr. 780 á heimslistanum.

Næst verður Englendingurinn Matthew Nixon kynntur.

Matthew Nixon

Matthew Nixon fæddist í Manchester á Englandi 12. júní 1989 og er því 22 ára. Hann hætti að nota plastkylfur 5 ára og fór að nota alvöru upp frá því. Klúbburinn sem hann er félagi í á Englandi er Ashton under Lyne, en þar hefir hann verið allt frá 7 ára aldri. Hápunktar áhugamannsferils hans er sigur á British Boys Amateur Championship árið 2006 á Royal Aberdeen.  Hann ætlaði sér að spila í Walker Cup 2011 en freistingin að gerst atvinnumaður á Evróputúrnum var of mikil.  Nixon gerðist því atvinnumaður árið 2010 og sama ár komst hann þá þegar í gegnum Q-school. En eftir að hafa aðeins náð að komast í gegnum 6 niðurskurði á keppnistímabilinu 2011 varð hann aftur að fara í Q-school í desember 2011 s.l. og þar nældi hann sér í 14. kortið sem í boði var þ.e. varð í 14. sæti á l0kaúrtökumótinu. Hann vonast til að feta í fótspor vinar síns Danny Willet og festast í sessi á Evróputúrnum.  Helstu áhugamálin fyrir utan golfið eru bílar og Formúla 1.  Mestu fyrirmyndirnar í golfinu eru Tiger Woods, Ernie Els og Rory McIlroy.

Til þess að sjá lokastöðuna á Q-school Evrópumótaraðrainnar 2011 smellið HÉR: